136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:38]
Horfa

Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Forseti var að telja þá sem eru á mælendaskrá í stjórnarskrármálinu sem var hér til umræðu fram á nótt, 26 hafa óskað eftir að taka til máls og augljóst að þetta er forgangsmál hjá þeim þingmönnum sem hér eru og mjög mikilvægt að taka það fyrir. (Gripið fram í.) Til að upplýsa hv. þingheim var fundur hér í hádeginu í gær með þingflokksformönnum. (Gripið fram í.) Það hefur verið boðaður þingflokksformannafundur aftur eftir klukkutíma þannig að þetta sé á hreinu. Þetta með forgangsmálin hefur líka verið rætt við formenn flokkanna vegna þess að við þurfum auðvitað að ljúka þessu þingi. Eðlilegur vettvangur umræðu um það sem hér er verið að ræða um fundarstjórn forseta er með formönnum þingflokka og forseti biður hv. þingmann og formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins að tala þar fyrir máli. Þar var rætt um að hvert mál sem kom til umræðu áður tók allt upp í 6–8 klukkustundir, jafnvel mál sem voru til 3. umr. og samkomulag um, og ég hef haft áhyggjur af því að við eigum eftir hér að vera í a.m.k. nokkra daga í viðbót, jafnvel fram yfir páska þannig að við skulum ræða þetta á þeim vettvangi.

Ef menn óska eftir að eyða tímanum hér í að ræða fundarstjórn forseta og halda áfram að gefa forseta góð ráð er þeim það velkomið.