136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil bara styðja hæstv. forseta í ákvörðunum hans um dagskrá. Hún er auðvitað byggð á því að sjálfstæðismenn hafa sýnt hér mikinn áhuga á að ræða stjórnarskipunarlögin í þaula og eru hér mjög margir á mælendaskrá. Hv. þm. Birgir Ármannsson stakk upp á því hér áðan að hægt væri að haga málum öðruvísi með því að taka litlu málin fyrr, ýmis minni brýn atvinnumál, (Gripið fram í: Fljótlegu.) fljótlegu málin, eins og hann orðaði það.

Það er bara því miður, hv. þingmaður, ekki á vísan að róa hvað er fljótlegt og hvað er ekki fljótlegt þegar Sjálfstæðisflokkurinn er annars vegar. (Gripið fram í.) Við stóðum í því hér langt fram á nótt að hlusta á málþóf og þæfing Sjálfstæðisflokksins út af endurgreiðslum til kvikmyndagerðar og Sjálfstæðisflokkurinn brast hér á með fjöldasöng og skemmtilegheitum til að tefja málið. (Gripið fram í.) Við sáum það, þjóðin sá aðferðafræði Sjálfstæðisflokksins og hún er Sjálfstæðisflokknum ekki til sóma. Ef Sjálfstæðisflokkurinn sýndi nú í verki að hann væri tilbúinn til að vinna góðum málum gagn og koma þeim hratt í gegnum þingið væri þetta kannski mögulegt, (Forseti hringir.) en því miður er það ekki mögulegt þegar við svona málþófsflokk er að eiga.