136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[11:57]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hélt að við hefðum verið búin að koma þeim sjónarmiðum okkar á framfæri um að við vildum ræða atvinnumál. Hér kemur hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og sakar okkur um að vilja ekki sinna því að atvinnumálin séu tekin á dagskrá. Hvers lags málflutningur er þetta? Við erum búin að bjóða upp á að við ræðum atvinnumál, ræðum þau mál sem brenna á þjóðinni, efnahagsmál. Það eru atvinnumál, efnahagsmál, málefni heimilanna — ræðum þau mál. Og framkoma hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar er stórkostleg þegar haft er í huga að það var Samfylkingin sem fór með atvinnumálin, fór með bankamálin og hver er staðan núna? Ég held að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ætti að íhuga það með sjálfum sér og þá getum við rætt fundarstjórn forseta um það hvernig samvisku hans er fyrir komið.