136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:43]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg sérstaklega dapurlegt að heyra hæstv. forsætisráðherra hreykja sér af því að ætla að koma þessu frumvarpi til breytingar á stjórnskipunarlögum í gegnum þingið í trássi við stærsta þingflokk þingsins og telja, ef ég hef skilið orð hennar rétt, að þetta séu hin nýju vinnubrögð sem þurfi eftir að kona er orðin forsætisráðherra.

Ég kalla aftur eftir því og vonast til að í umræðunni á eftir muni þeir, þar á meðal hv. þm. Jón Bjarnason, útskýra fyrir mér — ég sé að hæstv. fjármálaráðherra er á staðnum — hvað hefur breyst frá því að þeir sjálfir fordæmdu vinnubrögð mjög afgerandi árið 2007. Ummæli þeirra bera þá vitni vinnubrögðum af því tagi sem stjórnin sem þeir eru í núna og styðja, viðhefur.

Það er nefnilega staðreynd, eins og ég rakti í ræðu minni, að það er samstarf og samstaða um stjórnarskrárbreytingar sem verið hefur leiðarljós allra pólitískra flokka frá lýðveldisstofnun. Aðeins einu sinni hefur það verið gert í trássi við stjórnmálaflokk og það var flokkur sem var að missa völd. Ég veit ekki betur en það hafi komið sérstaklega fram í ræðum okkar sjálfstæðismanna að við erum algerlega tilbúin að semja um breytingar á 79. gr. þannig að það komi til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar eins og nefndin frá 2007 gerði að megintillögu sinni. Ég veit ekki betur en að búið sé að margbjóða það samkomulag. En það er bara enginn samkomulagsvilji um það af því að menn vilja knýja fram meiri breytingar. En ég árétta, virðulegi forseti, að ég held að það séu fleiri en ég sem verði fyrir vonbrigðum með að heyra svar hæstv. forsætisráðherra.