136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:45]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ofmælt hjá hv. þingmanni að segja að það sé enginn samstarfsvilji af hálfu þeirra fjögurra flokka sem standa að þessari stjórnarskrárbreytingu vegna þess að á laugardaginn voru lagðar fram verulegar breytingar á frumvarpinu eins og það var lagt fram í upphafi einmitt til að mæta sjónarmiðum sjálfstæðismanna. En allt kom fyrir ekki. Þeir halda sig við að það eigi bara að afgreiða eitt af þeim atriðum sem þeir geta fallist á. Þeir verða náttúrlega að fara að gera sér grein fyrir því, sjálfstæðismenn, að þeir eru komnir í minni hluta í þinginu, þeir eru komnir í stjórnarandstöðu eftir 18 ára valdasetu og ég tel að það hafi raunar verið löngu tímabært.

Þeir verða að gera sér grein fyrir því að það eru fjórir af fimm flokkum sammála um ákveðnar breytingar á stjórnarskránni, breytingar sem sumar hverjar hafa verið ræddar langtímum saman í stjórnarskrárnefnd, t.d. auðlindaákvæðið allt frá árinu 2000. Það er ekki lýðræði ef það á að vera með þeim hætti sem sjálfstæðismenn virðast telja að sé lýðræði, að aðeins sé afgreitt eitt ákvæði af fjórum af því að það eru ákvæði sem sjálfstæðismenn vilja afgreiða, en ekki ákvæði eins og auðlindir í þjóðareign, þjóðaratkvæðagreiðsla og stjórnlagaþing, sem fjórir flokkar af fimm eru sammála um að eigi að breyta. Við höfum komið til móts við þau sjónarmið sem fram hafa komið í mörgum atriðum í þeim breytingartillögum sem gerðar hafa verið.

Af því að alltaf er verið að tala um að það sé einsdæmi í sögunni að lagðar séu fram breytingar á stjórnarskránni sem ekki hafi verið sátt um á þingi, þá nefndi hv. þingmaður réttilega að fyrrv. formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrv. formaður Framsóknarflokksins lögðu fram frumvarp tveir saman á Alþingi (Forseti hringir.) um breytingar á stjórnarskránni og þá væntanlega án samráðs (Forseti hringir.) við aðra.