136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:47]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð sífellt daprari eftir því sem ég heyri meira af því sem hæstv. forsætisráðherra segir um þetta mál. Ég hef að vísu ekki verið í sérnefnd um stjórnarskrána en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem þar hafa verið, segja að þær breytingar sem gerðar hafa verið hafi ekki verið til að koma til móts við Sjálfstæðisflokkinn. Þær voru til að sníða af augljósa og skelfilega annmarka sem voru á þeirri hrákasmíð sem þessi vinna er. En það var athyglisvert, herra forseti, að heyra orð hæstv. forsætisráðherra, sem endurspegla orð formanns sérnefndar um stjórnarskrármálin, að sjálfstæðismenn verði að fara að gera sér grein fyrir því að þeir eru komnir í minni hluta. Um hvað snýst þetta mál? Snýst þessi breyting um að pína þessar breytingar í gegn með illu eða góðu til að sýna Sjálfstæðisflokknum, stærsta þingflokknum á þinginu, hvar valdið er núna eða snýst þetta mál um að koma þessum breytingum fram í samstöðu? Hæstv. forsætisráðherra benti réttilega á að ég rakti vinnubrögðin frá 2007 og ég vona að hún hafi heyrt að ég taldi þau ekki til fyrirmyndar. En þá bar sú stjórn gæfu til að hlusta, hæstv. forsætisráðherra, og hún hætti við tillögurnar af því að mótmælin frá minni hlutanum voru svo hávær. En það er kannski munurinn á stjórninni þá og nú að stjórnin þá hlustaði en stjórnin nú hlustar ekki og það kemur fram að með illu eða góðu skal þessari stjórnarskrárbreytingu troðið ofan í þjóðina. (Gripið fram í: Þetta er karlmannleg reiði …)