136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

[13:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða að frumkvæði hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar sýnir betur en nokkuð annað í hvaða öngstræti þessi ágæti ríkisforsjár- og haftaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, er kominn með efnahagsstefnu sína. Hann réði við það að koma á höftum í haust en ræður ekki við að losa þjóðina úr þeim. Hugmyndirnar sem hér eru færðar fram og eru m.a. byggðar á ágætri grein Yngva Arnar Kristinssonar hagfræðings fela allar í sér ríkisreknar handstýrðar leiðir til að falsa gengið fram hjá gjaldeyrismarkaði. Þetta eru leiðir sem eru ágætar fyrir sinn hatt en ég vek athygli á því að hinir verklitlu sendiboðar flokksins, hvort sem var í fjármálaráðuneyti eða Seðlabanka, komust aldrei til að hreyfa við þeim hugmyndum á meðan þeir sátu þar í nóvember, desember og janúar. Það er rétt að hafa í huga að þessar hugmyndir voru fyrst viðraðar fyrir áramót og ekkert gerðist í Seðlabanka eða fjármálaráðuneyti til að hrinda þeim í framkvæmd, þ.e. að innleysa krónubréfastöður með virkum aðgerðum ríkisins.

Ég vil hins vegar á móti reyna að færa hér fram rök fyrir almennum aðgerðum í efnahagslífi og að við setjum fram stefnu sem virkar fyrir alla en er ekki handstýrð eða ríkisstýrð. Þess vegna vitna ég í ágæta skýrslu Viðskiptaráðs sem kom út í dag og er full ástæða til að vekja athygli á henni þegar þingmenn Sjálfstæðisflokks eiga í hlut því að það virðist greinilega svo að það sé ekki mikið talsamband á milli Viðskiptaráðs og Sjálfstæðisflokksins lengur. Í skýrslunni er mælt gegn ríkisreknum leiðum af þessum toga en mælt með því að komið verði á almennri umgjörð um efnahagslífið í landinu og bent á að krónan hefur um árabil verið mikill tjónvaldur fyrir íslenskt atvinnulíf og komið í veg fyrir að íslensk fyrirtæki hafi getað sinnt því sem mestu skiptir sem er að reka fyrirtækin. Í skýrslunni er lagt upp með að stjórnmálamenn axli þá ábyrgð að marka stefnu í peningamálum til lengri tíma litið sem er akkúrat það sem ríkisforsjárflokkurinn mikli, Sjálfstæðisflokkurinn, móast við að gera af verkleysi og hugleysi.

Það er full ástæða til að vekja athygli á því að Viðskiptaráð skrifar þessa skýrslu og það (Forseti hringir.) svo vel að það mætti halda að hagfræðingar Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) hefðu skrifað hana sjálfir.