136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

[13:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að það er fátt sem vekur manni meiri ugg en haftastefna af því að vandinn með haftastefnu er auðvitað sá að sporin eða skrefin í átt til meiri hafta eru miklu einfaldari og auðveldari en sporin í átt frá höftunum. Þetta þekkjum við Íslendingar því við vorum svo ógæfusöm eftir síðari heimsstyrjöldina að við bjuggum okkur til kerfi sem við festum okkur sjálf meira og meira í, með meiri og meiri höftum sem við áttum svo erfitt með að komast út úr, bæði efnahagslega en líka andlega. Menn töldu að þetta væri eina leiðin sem menn hefðu, að auka alltaf höftin.

Þegar það síðan var gert kallaði það yfir okkur mikla gengisfellingu og heilmikil átök en niðurstaðan varð þjóðinni til góðs. Þess vegna skiptir miklu máli og ég skynja það í þessari umræðu að það sé djúpur skilningur á því hjá þingmönnum að þetta er ekki lausn sem við getum búið við til langs tíma. Höft eyðileggja og skemma allt efnahagskerfið og draga úr verðmætasköpun og draga úr því að við getum boðið þjóðinni þau lífskjör sem duga til þess að halda fólki hér og bjóða upp á sambærilegt við það sem aðrar þjóðir geta gert.

Rétt vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram, þ.e. að menn finni leiðir fram hjá þessu kerfi. Já það er einmitt vandinn með öll höft að það eru hugmyndir fárra, þ.e. þingmanna og embættismanna sem eru að reyna að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir svindlið, en það eru svo margir sem eru svo útsjónarsamir og flinkir og ætla svo mikið að græða og það eru einmitt þeir sem fá hugmyndirnar og við síðan eltum og reynum að setja nýjar reglur, það er stóri vandinn.

Eitt varðandi þau orð sem hér féllu hjá einum hv. þingmanni áðan, þar sem snúið var að Sjálfstæðisflokknum að hann væri bæði verklítill og huglaus í þessum málum. Nú á sá ágæti stjórnmálaflokkur Samfylkingin enn þá tækifæri til þess að standa við stóru orðin og vera verkmikill og hugdjarfur flokkur og nýta (Forseti hringir.) tækifærið þegar hann er í ríkisstjórn og krefjast þess að það verði farið beint í aðildarviðræður eða í það minnsta boðið upp á þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort farið verði í umsóknaraðild við ESB. Það er stórkostlegt tækifæri til þess að sýna bæði verksemi og hugrekki.