136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

áhrif gjaldeyrishafta á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

[13:56]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að sú ríkisstjórn sem nú situr og hefur setið í rúmlega tvo mánuði hafi sennilega sýnt af sér mun fleiri verk en nokkurn tíma sú ríkisstjórn sem sat áður, það liggur fyrir vilji menn fara út í þá umræðu.

Ég vil hins vegar þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál upp og ræða það og gera það á þann hátt sem hann gerði. Hann gerði það málefnalega og vel og ég vil taka undir með honum og eins hæstv. ráðherra sem fór yfir ákveðna hluti. Þær hugmyndir sem þar komu fram drógu það ágætlega fram að höftin eru bara viðbrögð við þeirri stöðu sem kom upp. Við erum í miklum erfiðleikum og þess vegna þurfti að grípa til þessara hafta.

Lausnirnar eru ekki einfaldar en það er alveg rétt hjá hæstv. viðskiptaráðherra að það þarf að koma ró á markaðinn, það er sú skammtímaaðgerð sem þarf að ráðast í. Hin aðgerðin, sem er stóra aðgerðin, það er peningamálastefna til framtíðar. Mitt mat er það að við munum ekki fá hingað erlent fjármagn svo nokkru nemi fyrr en við höfum markað okkur stefnu til lengri tíma og ég fæ ekki séð og hef ekki séð neinar þær hugmyndir koma fram aðrar en að ganga til liðs við Evrópusambandið sem getur tryggt að við náum eðlilegu sambandi við útlönd, við getum farið að fá erlent fjármagn inn til landsins þannig að við getum farið að fá fjárfestingu og uppbyggingu sem geti orðið til þess að skapa þau störf sem við þurfum að skapa á næstu árum. Þau störf eru sjálfsagt á bilinu 20 til 40 þúsund, sem við þurfum að búa til. Þau verða ekki til í landbúnaði, þau verða ekki til í sjávarútvegi. Við þurfum að skapa ný störf með nýrri fjárfestingu og það gerum við ekki nema við mótum hér alvöru peningamálastefnu til lengri tíma og partur af henni hlýtur að vera að taka upp nýja mynt og einasta myntin sem er í augsýn, sem er vænleg, er evran. (Forseti hringir.) Aðild að Evrópusambandinu hlýtur því að koma í kjölfarið á þeirri stöðu sem við nú stöndum frammi fyrir.