136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Í upphafi ræðu minnar langar mig til að byrja á því að fara aðeins yfir það um hvað þessar umræður allar snúast. Þær eru í rauninni tvíþættar. Annars vegar eru menn að ræða efnislega um þær breytingartillögur sem liggja fyrir í þinginu á því frumvarpi sem fjórir hv. þingmenn flytja um breyting á stjórnarskránni. Hins vegar snýst þessi umræða um það hvort eðlilegt sé, nú þegar þingstörfum er að ljúka, um það bil 20 dagar eru til kosninga, að fara þá að ræða um grundvallarbreytingar á stjórnarskránni og stjórnskipaninni þegar önnur og brýnni viðfangsefni eru til umfjöllunar og bíða úrlausnar.

Ég hef sagt það eins og allir sjálfstæðismenn sem tekið hafa þátt í þessari umræðu að forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar sé kolröng. Fyrir utan það að við erum mótfallnir flestum efnisatriðum þessa frumvarps þá teljum við að flutningsmenn þessa frumvarps með hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, leiðtoga ríkisstjórnarinnar sem segja á tyllidögum að þeir vilji leggja ofuráherslu á að slá skjaldborg um heimilin í landinu, verja atvinnulífið og búa til störf, séu að eyða dýrmætum tíma þingsins í umræður um breytingar á stjórnarskránni og ekki bara einhverjar breytingar heldur breytingar sem fela það í sér að verið er að draga úr völdum þingsins, Alþingis sem flutningsmenn frumvarpsins sitja sjálfir á. Þessar breytingar hafa ekkert með heimilin, atvinnulífið og atvinnusköpun að gera. Það er alveg sama hversu margar ræður hv. þingmenn í stjórnarliðinu halda hér, fólkið í landinu og þeir sem fylgjast með þessum umræðum skilja að breytingar á stjórnarskránni munu ekki breyta skuldastöðu heimilanna. Breytingar á stjórnarskránni munu heldur ekki skapa störf í landinu. (PHB: Jú, 41.)

Það sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins erum að benda á er þetta: Ríkisstjórnin ætti frekar að snúa sér að málefnum heimilanna og atvinnulífsins í landinu en að gera breytingar á stjórnarskránni.

Við ræddum í dag, ég ræddi í gær og ég ræddi líka í fyrradag að námsmenn í Háskóla Íslands óttast mjög um sinn hag. Það er fyrir séð að meginþorri námsmanna mun ekki fá vinnu nú í sumar. Ég hef kallað eftir viðbrögðum frá hæstv. forsætisráðherra. Við höfum kallað eftir viðbrögðum frá hæstv. menntamálaráðherra, frá ríkisstjórninni, frá stjórnarmeirihlutanum og frá Framsóknarflokknum, viðbrögðum við því hvernig þeir ætla að leysa þennan vanda og engin svör hafa borist.

Í dag eru 17.944 einstaklingar atvinnulausir. Þetta eru málin sem við ættum að vera að ræða hér. Við ættum að vera að ræða um það hvernig ríkisstjórnin ætli, hvernig stjórnmálaflokkarnir ætli og hvernig Alþingi ætli að bregðast við þeim vanda sem uppi er. Þess í stað kýs ríkisstjórnin að leggja allan sinn kraft í það að breyta stjórnarskránni.

Á Íslandi eru vextir hæstir í Vestur-Evrópulöndunum. Hér er verðbólga há. Tæplega 18 þúsund eru atvinnulausir og þeir sem ekki hafa misst vinnuna hafa lækkað í launum. Við sjálfstæðismenn höfum í umræðunni lagt það til að dagskrá þessa fundar verði breytt, að umræður um stjórnarskrárbreytingar verði lagðar til hliðar til að hægt verði að ræða mál sem varða atvinnuuppbyggingu í landinu, varða heimilin í landinu og varða skuldir heimilanna. Þessum tillögum okkar hefur verið illa tekið. Þessu tilboðum okkar hefur verið hafnað og ég lýsi furðu minni á því, sérstaklega vegna þess að hæstv. forsætisráðherra og 1. flutningsmaður þessa frumvarps er í salnum. Ég lýsi furðu minni á því að forustumaður í ríkisstjórn sjái það ekki að með breytingum á stjórnarskránni verða ekki til fleiri störf í landinu og breytingar á stjórnarskránni hafa ekkert með skuldir heimilanna að gera og það veit hæstv. forsætisráðherra. Ég skora á hæstv. forsætisráðherra því hún situr í salnum að koma í andsvar við mig að ræðu minni lokinni og svara þeirri spurningu minni hvað þetta mál hafi með hagsmuni heimilanna, skuldastöðu þeirra og atvinnuleysið í landinu að gera. Ég mundi gjarnan vilja fá svör við þeirri spurningu.

Eins og ég hef áður sagt og sagði í ræðu í morgun þá minnir þessi framganga ríkisstjórnarinnar og flutningsmanna þessa frumvarps á fornan atburð, nefnilega þann þegar Rómaborg brann. Þá sat helsti ráðamaður Rómar, Rómakeisarinn Neró, og spilaði á fiðlu meðan borgin brann. Nú eru heimilin í landinu að brenna og fjölskyldurnar og ríkisstjórnin með Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra í fararbroddi hefur gripið þessa fiðlu á lofti og hafið sitt spil undir fölskum undirleik Framsóknarflokksins á meðan fólkið í landinu þarf að bíða eftir þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið en koma ekki inn í þingið. Það er sorgleg staðreynd, frú forseti, að svona sé haldið á málum á þinginu, að þessi ríkisstjórn skuli ekki geta forgangsraðað verkefnum á þinginu í þágu heimilanna í landinu og í þágu atvinnulífsins. Það er hún ekki að gera. Við höfum boðist til þess að það verði gert og að hér verði tekin upp mál sem hafa með þessi atriði að gera en því hefur verið hafnað þráfaldlega.

Ég get ekki látið hjá líða þegar ég ræði þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga að víkja nokkrum orðum að annarri ræðu sem haldin var hér fyrr í umræðunni. Hv. þm. Ellert B. Schram, þingmaður Samfylkingarinnar sem átti sæti í sérnefnd um stjórnarskrármál tók fyrstur til máls af hálfu þingmanna Samfylkingar og hélt makalausa ræðu þar sem hann réðst með ómaklegum hætti á Sjálfstæðisflokkinn og alla þá sem í þeim flokki starfa og hafa starfað. Hv. þingmaður kenndi Sjálfstæðisflokknum um allt það sem miður hefur farið hér á síðustu mánuðum og árum. Hv. þm. hélt því fram að Sjálfstæðisflokkurinn bæri ábyrgð á því kerfishruni sem varð á fjármálamarkaði og það mætti halda því fram á grundvelli þeirrar röksemdar sem þar var færð fram að Sjálfstæðisflokkurinn bæri hreinlega ábyrgð á alheimskreppunni eins og hún blasir við okkur. Hann lýsti því yfir að það frumvarp sem við ræðum hér um breyting á stjórnarskrá væru viðbrögð við því kerfishruni sem átti sér stað á fjármálamarkaði. Það er skrýtin ályktun hjá hv. þingmanni að halda því fram, að halda því fram að breytingar á stjórnarskránni hafi eitthvað með kerfishrunið á fjármálamarkaði að gera. Það er eins og hv. þingmaður hafi til dæmis ekki lesið skýrslu sem finnskur sérfræðingur að nafni Kaarlo Jännäri samdi fyrir forsætisráðuneytið og ríkisstjórnina. Þar er ekkert á það minnst að ráðast þurfi í stjórnarskrárbreytingar sem viðbrögð við kerfishruni sem átti sér stað á Íslandi.

Það sem mér fannst verra og athyglisverðara, úr því að hv. þingmaður vék að Sjálfstæðisflokknum og vildi kenna honum um allt sem miður fór, var að hann hélt því fram að útrásarvíkingarnir, bankamennirnir, yfirmenn bankanna og þeir sem tóku þátt í öllum þeim fjárfestingum og réðust í öll fjármálaævintýrin bæru ekki ábyrgð á því hruni sem hér átti sér stað og sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði skapað útrásarvíkingunum það frelsi sem þeir nýttu sér með þeim afleiðingum sem við höfum horft upp á á síðustu vikum og mánuðum og þess vegna væri hrun fjármálakerfisins Sjálfstæðisflokknum að kenna.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn reyndi einn að sporna og spyrna við fótum þegar sú þróun átti sér stað sem leiddi til hruns fjármálakerfisins. Samfylkingin hins vegar var alltaf á móti viðleitni sjálfstæðismanna til þess að koma böndum á útrásarvíkinga, koma böndum á þær fjárfestingar sem farið var í. Samfylkingin stóð alltaf með þeim fyrirtækjum sem stóðu að uppbyggingu fjármálakerfisins sem endaði með ósköpum. Hv. þm. Ellert B. Schram gerði Samfylkingunni þann greiða í ræðu sinni að taka upp hanskann fyrir útrásarvíkinga rétt eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, gerði í frægri Borgarnesræðu.

Í ræðu sinni í Borgarnesi vék hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar að þeim athugasemdum sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði á þeim tíma við framgöngu fjármálamannanna á Íslandi. En í ræðunni sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin“ — og þá á ég við deCode — „byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki — þarna er efinn og hann verður ekki upprættur nema hinum pólitísku afskiptum linni og hinar almennu gegnsæju leikreglur lýðræðisins taki við.“

Þetta var tilvitnun í ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem húðskammaði Sjálfstæðisflokkinn á þeim tíma fyrir að gera athugasemdir við framferði fjármálamanna á markaði og tiltók sérstaklega Kaupþing, Baug og Norðurljós. Og svo leyfir hv. þm. Ellert B. Schram sér að koma hingað upp í ræðustólinn og halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aldrei gert neitt, allt sé Sjálfstæðisflokknum að kenna. Flokkurinn sem setti þó spurningarmerki við þá þróun sem átti sér stað. Hvar var hv. þm. Ellert B. Schram þegar við vorum að reyna að koma böndum á fjölmiðlana með fjölmiðlalög? Hann var á móti því máli eins og hæstv. forsætisráðherra. Þessi málflutningur er fyrir neðan allar hellur og það er ekki hægt að þola það að hv. þingmenn sem eiga að vera sæmilega upplýstir gangi fram með þessum hætti. En Samfylkingin kýs að stilla sér við hlið útrásarvíkinganna, segir þá ekki bera neina ábyrgð heldur Sjálfstæðisflokkinn. Við berum okkar ábyrgð og við höfum gert það upp og gengist við þeirri ábyrgð sem við berum á hruni fjármálakerfisins og við höfum sagt — (EBS: Einir flokka.) Og einir flokka. Það gerði Samfylkingin t.d. ekki á landsfundi sínum og forðaðist það eins og heitan eldinn og það sama má segja um Framsóknarflokkinn sem var í 12 ár í ríkisstjórn af þeim 18 sem við sjálfstæðismenn vorum í ríkisstjórn. Hin 6 árin, úr því að það er alltaf talað um að Samfylkingin hafi bara verið í 18 mánuði í ríkisstjórn, hin 6 árin, 33% af tímanum var Samfylkingin eða Alþýðuflokkurinn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hvorugur þessara flokka hefur séð ástæðu til að gera upp sína fortíð. En kemur hingað og slettir eins miklu af skít á Sjálfstæðisflokkinn og mögulegt er og það er ekki hægt að sitja undir slíkum málflutningi.

Frú forseti. Ef við víkjum þá að stjórnarskránni og þeim breytingum sem hér eru lagðar til þá vil ég segja að stjórnarskrárbreytingar eru stórmál. Það er stórmál að breyta stjórnarskránni eins og sagði Össur Skarphéðinsson, núverandi utanríkis- og iðnaðarráðherra, sagði í ræðu sem hann hélt þann 9. mars 2007, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Þá var hann stjórnarandstæðingur. (Gripið fram í: Hvenær þá?) Það var árið 2007, nú er árið 2009 og hæstv. utanríkisráðherra er annaðhvort búinn að gleyma þessum orðum sínum eða hæstv. forsætisráðherra kýs að hlusta ekki á hann.

Slík vinnubrögð hafa Svíar tekið sér til fyrirmyndar. Þeir hafa verið að fjalla um grundvallarbreytingar á stjórnarskipunarlögum sínum í 9 ár. Þeir ætla að vanda til breytinga á sinni stjórnarskrá. Hér á Íslandi ætla menn sér að klára stjórnarskrárbreytingar á mettíma, í bullandi ágreiningi í fyrsta skipti í 50 ár í lýðveldi sem er ekki nema rúmlega 65 ára gamalt. Það sem er ótrúlegt og ég vék að fyrr í dag og ég gerði það líka í gær að flutningsmenn frumvarpsins, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar og hæstv. fjármálaráðherra þjóðarinnar, sáu ekki ástæðu til að vera viðstaddir umræðu um eigið mál í gær. Það er virðingin sem hæstv. ráðherrar bera fyrir stjórnarskránni, bera fyrir þinginu og bera fyrir því máli sem þeir eru sjálfir að flytja. Við sáum í iljarnar á þeim á fyrsta degi umræðu um þetta mál í 2. umr. á sama tíma og Svíar gefa sér 9 ár til að fara varlega yfir þessi mál.

Þessi vinnubrögð sýna að það fólk sem stendur að þessu máli ber enga virðingu fyrir því viðfangsefni sem við erum að fjalla um. Það sýnir þinginu vanvirðingu, það sýnir þjóðinni vanvirðingu og það sýnir stjórnarskránni vanvirðingu. Af hverju segi ég það? Stjórnarskráin er grundvöllur okkar þjóðskipulags. Þar eru þær meginreglur sem samfélagið er byggt á.

Í 2. gr. stjórnarskrárinnar segir að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið og dómendur fara með dómsvaldið. Þetta er það ákvæði í stjórnarskránni sem í daglegu tali er kallað þrískipting ríkisvaldsins.

Með því frumvarpi sem við erum að ræða hér er í raun verið að leggja til breytingu á þrískiptingu ríkisvaldsins. Það er í sjálfu sér stórmál. Það er í sjálfu sér stórmál þegar þingmenn og Alþingi leggja til að það verði í raun gerð breyting á þrískiptingu ríkisvaldsins, meginreglu íslenskrar stjórnskipunar og hafa svo uppi við þær umræður athugasemdir um að þeir sem vilja gerast svo djarfir að ræða slíkar hugmyndir hafi uppi málþóf. Auðvitað er þetta ekkert málþóf. Þetta eru skoðanir mínar á því hvernig ég tel að stjórnarskráin eigi að líta út, enda ber ég þá virðingu fyrir stjórnarskránni að um hana sé gengið varlega. En þetta er líka stórmál. Þær breytingar sem hér eru lagðar til — og þá á ég kannski helst við breytinguna í 4. gr., þ.e. tillögu um að hér verði komið á stjórnlagaþingi, er stórmál fyrir elstu og virðulegustu stofnun landsins, Alþingi.

Alþingi Íslendinga var stofnað árið 930 og við erum afar stolt af löggjafarþinginu okkar. Við tökum á móti erlendum þjóðhöfðingjum, kynnum þeim þingið sem við segjum það elsta í heimi og erum afar stolt af þessari stofnun. Þegar við tölum um Alþingi, a.m.k. gagnvart erlendum þjóðhöfðingjum, göngum við fram af virðingu við þingið og kynnum það sem slíkt. Þess vegna er svo merkilegt að í þessu húsi séu fjórir hv. þingmenn, þar af tveir hæstv. ráðherrar sem eru reiðubúnir til að leggja fram frumvarp sem felur ekkert annað í sér en það að grafa undan Alþingi. Þetta frumvarp er niðurlæging við Alþingi Íslendinga og ég tek undir með hv. þm. Birni Bjarnasyni að það er niðurlægjandi að þurfa að vera að ræða þessi mál á þeim forsendum sem hér er lagt til.

Það er verið að leggja til að stofnað verði annað þing við hlið þess sem fyrir er, við hlið Alþingis Íslendinga. Mér finnst furðulegt, auðvitað finnst mér furðulegt að einhverjum hv. þingmanni, hvað þá ráðherra og hvað þá forsætisráðherra landsins detti í hug slíkur tillöguflutningur. En að forseti Alþingis sem er forseti allra okkar þingmannanna skuli ekki gera neinar athugasemdir við þennan tillöguflutning, maðurinn sem er í forsvari fyrir þingið sjálft gerir engar athugasemdir við það að hér séu þingmenn reiðubúnir til að grafa undan þinginu og búa til annað og skipa og stofna annað þing til hliðar við það sem fyrir er. Það verður fróðlegt að sjá hvort Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, hv. þingmaður, mun taka þátt í þessari umræðu. Ég tel að honum beri að gera það, honum beri að svara þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram sem varða þingið, Alþingi Íslendinga og virðingu þess. Annað er algerlega óásættanlegt. Það er óásættanlegt að forseti Alþingis ætli ekki að blanda sér í þessar umræður.

Þá kem ég að einmitt öðrum lykilstofnunum í samfélaginu. Hvað mundu menn segja ef það sama yrði gert með aðrar lykilstofnanir samfélagsins? Halda menn t.d. að forseti Hæstaréttar Íslands mundi láta sig það einhverju varða ef stofna ætti nýjan hæstarétt til hliðar við þann sem fyrir er? Nýjan dómstól sem fengi það hlutverk að fjalla um einhver sérstök mál, stjórnskipunarmál eða einhver önnur? Ég geri ráð fyrir því að menn vildu ræða slíka breytingu, meira að segja hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir. (VS: Mér finnst það bara sniðugt.) Já, henni finnst það sniðug hugmynd og kannski er það sniðug hugmynd. En það væri stór ákvörðun sem ástæða væri til að ræða og ég hugsa að forseti Hæstaréttar mundi hafa skoðanir á slíkum málum. En forseti Alþingis? Það hefur alla vega ekki komið í ljós í þessari umræðu að hann hafi einhverja skoðun á því máli sem hér er verið að fjalla um.

Ég geri líka ráð fyrir að forseti lýðveldisins mundi hafa eitthvað um það að segja ef gerðar yrðu grundvallarbreytingar á stöðu hans í stjórnskipuninni. Hann mundi örugglega hafa skoðanir á því ef menn ætluðu að skipa annan forseta honum til hliðar. Sá ágæti maður gæti þá bara verið útrásarforsetinn og hinn nýi forseti gæti tekið að sér annað hlutverk, t.d. að vera sameiningartákn þjóðarinnar svo dæmi sé tekið af handahófi. Nei, forseti Íslands gerir ekki neitt. Hann segir ekki orð um þann tillöguflutning sem hér er til umræðu sem er furðulegt vegna þess að hann er niðurlægjandi. (Gripið fram í: … forseta?) Forseti Alþingis, þetta er niðurlægjandi fyrir þingið.

Við sjálfstæðismenn viljum breyta stjórnarskránni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið að slíkum breytingum og gert tillögur um breytingar á stjórnarskránni. Við höfum unnið að slíkum breytingum ár eftir ár innan stjórnarskrárnefndar, innan þingsins og víðast hvar. Við höfum reynt að leggja okkur fram um að gera það með vönduðum vinnubrögðum og í samráði við alla aðila sem að þeim málum koma, enda er stjórnarskráin grundvöllur stjórnskipulags íslenska lýðveldisins og mælir fyrir um reglur sem fjalla um vald handhafa ríkisvaldsins, þ.e. löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds, og hins vegar um mannréttindi borgaranna og þær takmarkanir og skyldur sem hvíla á handhöfum ríkisvalds gagnvart almenningi í landinu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið reiðubúinn og lýst þeirri skoðun sinni að hann sé reiðubúinn til að breyta stjórnarskránni með ígrunduðum hætti og hefur lagt fram tillögu í þeim efnum. Til þess að liðka fyrir slíkum breytingum og skapa svigrúm fyrir vandað verklag höfum við talið eðlilegt að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að ekki þurfi að rjúfa þing og fá endurnýjað samþykki Alþingis til þess að stjórnarskrárbreytingar taki gildi. Tillaga Sjálfstæðisflokksins kveður á um að breytingar á stjórnarskrá eigi að leggja fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef farin verður sú leið á yfirstandandi þingi og endurnýjað samþykki Alþingis fæst eftir kosningar verður hægt að setja hugmyndir um breytingar í stjórnarskrá í vandaðan farveg og leggja þær svo í dóm þjóðarinnar án þess að rjúfa þing. Það væri kannski ástæða fyrir framsóknarmenn að taka afstöðu til þessarar hugmyndar vegna þess að nú er búið að breyta hugmyndum þeirra um stjórnlagaþingið sem gerir ráð fyrir því að stjórnlagaþingið eigi ekki að koma saman fyrr en 17. júní 2010, eftir rúmlega ár. Hvernig í ósköpunum er hægt að rökstyðja það að breyta þurfi stjórnarskránni núna á örfáum dögum til þess eins að samþykkja að stjórnlagaþing komi saman 17. júní 2010? Ég lýsi mig reiðubúinn til að taka umræðu við Framsóknarflokkinn um stjórnlagaþing á næstu vikum og mánuðum sem vonandi er hægt að lenda farsællega en við breytum ekki stjórnarskránni með þessum hætti, á örfáum dögum á handahlaupum til þess að ná þessari breytingu fram.

Eins og ég hef vakið sérstaka athygli á hafa breytingar á stjórnarskrá enga þýðingu fyrir bráðavandann í efnahagslífinu. Fyrirtækin í landinu falla hvert af öðru og heimilin hrópa á aðgerðir. Það er mikilvægt að setja mál sem varða risavaxinn vanda fyrirtækja og heimila í forgang og við höfum lýst því yfir að við viljum greiða fyrir slíkum málum.

Það er dálítið merkilegt að fylgjast með því hvernig menn umgangast stjórnarskrána á Alþingi. Það er önnur umgengni við stjórnarskrána á Alþingi en í öðrum lykilstofnunum þjóðfélagsins. Það þekki ég ágætlega úr mínu fyrra starfi sem lögfræðingur. Hér eru menn reiðubúnir til að keyra í gegn breytingar á stjórnarskrá á örskömmum tíma í bullandi ágreiningi við stærsta stjórnmálaflokkinn í landinu, í bullandi ágreiningi við fræðimenn og hagsmunasamtök sem sett hafa fram athugasemdir, mjög alvarlegar, við efni frumvarpsins bara til að ná einhverjum pólitískum markmiðum. Hjá dómstólunum, sem eru ekki síður mikilvægir í okkar stjórnskipun og okkar þjóðfélagi, fara menn öðrum höndum um stjórnarskrána. Þar bera menn virðingu fyrir stjórnarskránni. Þegar mál koma fyrir dómstóla eins og héraðsdóm, héraðsdómstólana, og verið er að fjalla um álitamál sem varða stjórnarskrána bregðast dómarar iðulega þannig við að hafa dóm fjölskipaðan vegna þess að þeir vita að stjórnarskráin er grundvallarlög íslenska samfélagsins og það skiptir máli hvernig með hana er farið. Þegar mál koma fyrir Hæstarétt Íslands er það sama undir. En hér eru menn tilbúnir til að ræða stjórnarskrána á nóttunni á grundvelli frammíkalla, óvandaðra vinnubragða og guð má vita hvað.

Við sjálfstæðismenn viljum vönduð vinnubrögð. Við viljum ekki fljótaskrift eða handahófskennd vinnubrögð og að stjórnarskráin og ákvæði hennar séu notuð sem pólitísk skiptimynt milli einstakra stjórnmálaflokka. Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra sagði, það á ekki að breyta stjórnarskránni í aðdraganda kosninga til þess að afla atkvæða. Við viljum ræða málin. Við viljum stjórnmál sátta og rökræðu, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í Borgarnesræðu sinni um árið, stjórnmál sátta og rökræðu en ekki átaka og kappræðu. Við sjálfstæðismenn bjóðum upp á það núna. Við erum að bjóða upp í þann dans en Samfylkingin virðist vera búin að gleyma því að sættir og rökræða eru eitthvað sem tilheyrir stjórnmálunum, en það á að keyra allt í gegn á örskotsstund.

Frú forseti. Vinnubrögðin í tengslum við þetta mál eru til fullkominnar skammar. Um mikilvægi markviss samstarfs við hagsmunaaðila í tengslum við stórmál eins og stjórnarskrána er fjallað í handbók sem ég hygg að sé ein af uppáhaldsbókum hv. þm. Atla Gíslasonar sem flaggaði henni reglulega þegar hann var í stjórnarandstöðu. Þetta er Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa. Forsætisráðuneytið gaf út þessa bók árið 2007 en þar er kveðið á um að samráð stuðli að því að forsendur mála liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin, og að samráð styðjist við þau lýðræðisrök að þeir sem ákvarðanir varða eigi þess kost að hafa áhrif á efni þeirra. Handbókin leggur til að ef samráð verður viðhaft sé frestur til að gera athugasemdir að jafnaði að lágmarki tvær vikur og kynningarfundur sé boðaður með minnst viku fyrirvara. Það er jafnframt mat ráðuneytisins, þ.e. forsætisráðuneytisins, í handbók þessari þegar um er að ræða veigamikil mál eins og stjórnarskrárbreytingar að samráð ætti að hefjast við hagsmunaaðila og sérfróða aðila þegar verið væri að meta nauðsyn lagasetningar, það ætti að jafnaði að fara fram áður en hafist er handa við að semja frumvarp. Og það er óhætt að segja að verulega hafi skort á að fyrirmæli handbókar forsætisráðuneytisins hafi verið höfð í heiðri við samningu þessa frumvarps sem er sérstaklega eftirtektarvert ekki síst í ljósi þess að 1. flutningsmaður málsins er sjálfur forsætisráðherra sem fer ekki einu sinni eftir fyrirmælum í handbók sem forsætisráðuneytið sjálft gefur út.

Hv. þm. Atli Gíslason er sá þingmaður sem hefur látið hvað mest að sér kveða í umræðu á Alþingi síðan hann tók hér sæti árið 2007, um faglega verkferla, um vönduð og gagnsæ og lýðræðisleg vinnubrögð á Alþingi. Það var ótrúlegt, það var magnað og það var eiginlega mergjað að hlusta á þann hv. þingmann mæra sjálfan sig, formann sérnefndar um stjórnarskipunarmál og aðra þá sem þátt eiga eða styðja meiri hlutann fyrir það hve vinnubrögðin í þessu máli hafi öll verið vönduð og hve markvisst og gott samstarf hafi verið haft við hagsmunaaðila. En umsagnirnar sem liggja fyrir í málinu tala öðru máli. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti, segir, með leyfi forseta:

„Það er skoðun mín að með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna. Þess má vænta að næsti meiri hluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem næst almennt sátt um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun.“

Davíð Þorláksson lögfræðingur segir, með leyfi forseta:

„… tel ég að það væri verulega misráðið af stjórnarskrárgjafanum að binda 1. gr. frumvarpsins í stjórnarskrána.“

Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, segir, með leyfi forseta:

„Veittur var frestur til 20. mars til að skila inn umsögn. Þennan frest verður að telja mjög skamman þegar umfang málsins er haft í huga.“ — Síðar segir hann: „Æskilegt að nákvæm skoðun fari fram á þessu atriði [þ.e. 1. gr. frumvarpsins] og mögulegum afleiðingum ákvæðisins að þessu leyti.“

Sigurður Líndal, minn gamli kennari, prófessor emeritus í lögfræði segir, með leyfi forseta:

„Ég tel að skoða þyrfti 1. gr. frumvarpsins betur vegna óljósrar merkingar orða og hugtaka sem þar eru notuð.“ — Hann telur rétt að fella burt 1. gr. þannig að betra tóm gefist til að huga að því hvernig slíkum yfirlýsingum verði fyrir komið ef á annað borð þykir rétt að hafa slíkt í stjórnarskrá.

Og síðar:

„Annars get ég ekki dulið þá skoðun mína að ólíklegt sé að þing skipað 41 manni valdi þessu verkefni. Líklegast að þingið þróist yfir í eins konar umræðufund og þrætusamkomu sem sökkvi niður í deilur sem engu skili.“ (Gripið fram í: Hann telur …)

Ragnar Árnason og Birgir Þór Runólfsson, prófessorar í hagfræði, segja, með leyfi forseta:

„… teljum við að með samþykkt ákvæðisins væri verið að veikja efnahag þjóðarinnar enn frekar.“

Rarik segir, með leyfi forseta:

„Jafnframt vill Rarik ohf. leggja sérstaka áherslu á gagnrýni á þau vinnubrögð sem í þetta skiptið eru viðhöfð við breytingu á stjórnarskránni.“

Samorka segir að efnisatriði frumvarpsins hafi ekki fengið þá almennu umfjöllun í samfélaginu sem æskilegt hlýtur að teljast við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Leggur Samorka til að frestað verði að taka inn í stjórnarskrá efnisatriði 1. gr. frumvarpsins.

Samtök atvinnulífsins leggja ofuráherslu á „að þess sé vandlega gætt að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá ýti ekki undir ódauðleika, vegi að ofangreindum gildum eða leiði til óæskilegra hindrana“. Og segja enn fremur að eitt brýnasta verkefni okkar sé að endurvekja traust umheimsins. Hringlandaháttur í lagasetningu sé ekki skref í þá átt.

Svo koma menn hér og halda því fram að það sé eðlilegt að gera þrjár breytingar á sama ákvæðinu á örfáum vikum.

Laganefnd Lögmannafélagsins, míns gamla félags, félags sem ég held að hv. þm. Atli Gíslason sé enn þá félagi í, hvað segir hún um þetta mál. (Gripið fram í: Hvar er hann?) Hvar er hv. þm. Atli Gíslason, sem telur að ekkert sé óljóst og öll vinnubrögð í málinu til fullkominnar fyrirmyndar? Hans félag segir, með leyfi forseta:

„Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar. Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“

Lögmannafélagið gefur þessu frumvarpi falleinkunn, málsmeðferðinni allri og efni frumvarpsins, algjöra falleinkunn. (VS: Þeir skiluðu einu blaði, A4.) Já, þeir skiluðu einu blaði, það er rétt hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, það er vegna þess að Lögmannafélagið og laganefndin fékk ekki meiri tíma til að fjalla um þetta mál sem er einsdæmi.

Frú forseti. Ég hef lokið máli mínu og mun halda því áfram í næstu ræðu minni þar sem ég hef ekki komið öllum þeim efnisatriðum að sem ég hyggst gera í þessari umræðu.