136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:03]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna lokaorða hv. þingmanns vil ég nefna að eftir fyrstu sjö eða átta tímana í umræðunni held ég að að minnsta kosti sjö eða átta fulltrúar þeirra flokka sem standa að þessu stjórnarfrumvarpi hafi talað, þ.e. af fyrstu tólf ræðumönnum og því er ekki eins og þeir hafi ekki tjáð sig.

Mér fannst margt ágætt í ræðu hv. þingmanns og hlustaði með athygli. En það er þó tvennt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um. Í fyrsta lagi talaði hv. þingmaður mikið um óvissuna og las m.a. upp í þrígang ef ég man rétt ef ekki í fjórgang skrif Davíðs Þórs Björgvinssonar um það efni. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Er staða dagsins í dag, sem hefur verið mikið rædd í áratugi, deilur um fiskveiðistjórnarkerfið o.s.frv., sú að það sé alveg klárt hvernig þessum réttindum er fyrirkomið í dag? Vegna þess að það hlýtur að vera ef þessar breytingar kunna að kalla á óvissu þá þætti mér vænt um að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess.

Seinna atriðið sem ég vildi spyrja hv. þingmann um er að hann ásamt flokksbræðrum sínum og -systrum, hv. þingmönnum, hafa talað talsvert um að vel hafi tekist til við breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Það hafa fallið nokkrir dómar um ákvæði sem þá voru sett og m.a. var gagnrýnt að með ýmsum ákvæðum sem þar voru sett hafi löggjafarvaldið að einhverju leyti verið fært til dómstóla. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji að hægt sé að setja ákvæði sem tryggi að aldrei nokkurn tíma komi upp deila, svörin séu alltaf skýr og aldrei kunni að koma upp spurningar sem ekki verði svarað (Forseti hringir.) með beinni tilvísun í ákvæði stjórnarskrárinnar, eins og mátti ráða að ætlunin væri af (Forseti hringir.) máli þingmannsins.