136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:22]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nákvæmlega það sem ég vildi sagt hafa. Að sjálfsögðu á að gera hlé á fundum Alþingis þegar formenn flokkanna eru að fara í sjónvarp. Að sjálfsögðu þurfum við að fá tækifæri til að fylgjast með því sem þar fer fram. Það er bara eðlilegt.

En ég vil fagna því, herra forseti, að umræðum frá Alþingi skuli vera sjónvarpað. Að þjóðin skuli sjá og geta fylgst með því þegar verið er að tala um grunngildi samfélagsins sem er stjórnarskráin, að almenningur í landinu sjái núverandi valdhafa ganga jafnsóðalega um stjórnarskrá Íslands. Þeir mæta ekki í þingsal. (Gripið fram í.) Þeir taka ekki þátt í umræðum og þeir kæra sig kollótta og tala svo um að lýðræðið sé hér í hávegum haft, en það er af og frá. Það er þakkarvert, herra forseti, (Forseti hringir.) að þessar upptökur skuli vera geymdar. Þær eru ekki gleymdar. (Forseti hringir.) heldur geymdar hjá hinu háa Alþingi þannig að þjóðin (Forseti hringir.) getur þegar fram líða stundir séð hvernig og hverjir það voru (Forseti hringir.) sem réðu ríkjum þegar þessi umræða fór fram.