136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:05]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Umræður um frumvarp til breytinga á stjórnarskránni hafa allt frá því að málið var lagt fram og rætt við 1. umr. verið mjög mikil sorgarsaga. Þegar hér stóð 1. umr. málsins þann 10. og 11. mars var nákvæmlega eins umhorfs í salnum og nú, engir flutningsmenn frumvarpsins sáu sér þá fært að fylgja málinu úr hlaði þótt þar hafi verið um að ræða 1. umr., almennt áhugaleysi hjá minnihlutaríkisstjórninni um þessa miklu lýðræðisbót sem sama fólk eyðir óskaplega miklum tíma og orðagjálfri í í útvarpi og sjónvarpi og raunar alls staðar annars staðar en hér. Það virðist vera ásetningur þeirra sem að þessu máli standa að alla umræðu sem er til þess fallin að afla sér vinsælda skuli menn stunda en ekki hér vegna þess að það gæti verið að þá þyrftu menn að mæta öðrum með aðrar skoðanir og þyrftu jafnvel að færa rök fyrir skoðunum sínum. Ég túlka það sem svo að það sé ekki það sem stuðningsmenn minnihlutaríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins vilja gera. Mér finnst þetta mjög dapurlegt.

Ég fletti því upp að gamni mínu í morgun hvernig hefði verið umhorfs á mælendaskrá þegar 1. umr. var og enginn fulltrúi Vinstri grænna tók til máls við 1. umr., enginn fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs hafði þá áhuga á því að ræða þetta mál. Raunar kom hv. þm. Atli Gíslason inn í umræðuna í gær, reifaði stuttlega sjónarmið sín, en ekki er hægt að segja að mikið hafi farið fyrir ræðum og skoðanaskiptum á milli manna hér í þingsalnum út af þessu máli.

Það er líka áhugavert að skoða umræðurnar sem urðu um frumvarp framsóknarmanna um stjórnlagaþing sem voru hér 17. febrúar sl. þar sem sú umræða var borin uppi af þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Þannig var nú það. Nákvæmlega það sama var uppi á teningnum þá, þeir sem standa að minnihlutaríkisstjórninni höfðu heldur ekki áhuga á því að ræða þetta frumvarp um breyting á stjórnarskipunarlögunum sem framsóknarmenn lögðu þá til um stjórnlagaþing.

Þetta er náttúrlega alveg til háborinnar skammar, það verður bara að segja alveg eins og er. Nú kemur í ljós að umræður eru að hefjast í sjónvarpssal og menn eru að undirbúa sig fyrir það. Ég ætla rétt að vona að okkur verði ekki boðið upp á það, þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, vegna þess að ég held að það sé gott að segja það bara hreint út að væntanlega verða það bara þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem verða hér í salnum að ræða málið. Ætli það sé þá ekki þannig að við verðum höfð hér í umræðunni og getum ekki einu sinni fylgst með þeirri umræðu sem fer fram á milli formanna flokkanna. Ég býst við því að forseti, sá sanngjarni forseti sem situr á forsetastól núna, gæti þess að svo verði ekki.

Maður spyr sig að því við þessar aðstæður þegar menn — vegna þess að ég held að menn hafi ekki hugsað það eða að menn tali ekkert um það hér til hvers stjórnarskráin er. Það er ekki bara það að stjórnarskráin sé þetta mikilvæga plagg, þetta grunnplagg í íslensku samfélagi og í réttarskipulagi hverrar þjóðar, hún er til þess að passa upp á réttindi borgaranna. Hún er til þess að gæta grundvallarmannréttinda. Hún er til þess að gæta þess að ríkið fari að réttum reglum og skynsamlega gagnvart þeim sem búa í landinu. Hún er öryggisventill, hún er í raun og veru allt það sem við sem búum hér þurfum að halda í og hún á ekki að gjalda fyrir það að menn eru að deila í pólitík. Hana á ekki að nota til að hefna sín á einum stjórnmálaflokki, stjórnarskráin ber ekki ábyrgð á Sjálfstæðisflokknum. Stjórnarskráin ber ekki heldur ábyrgð á þessu minnihlutafólki hér. Stjórnarskráin er plaggið okkar allra.

Mér fannst því dálítið áhugavert að lesa í nefndaráliti meiri hlutans nú að stjórnarskrá lýðveldisins, sem mun koma út úr stjórnlagaþinginu, mun verða stjórnarskrá þjóðarinnar allrar, virðulegur forseti. Út úr stjórnarskránni sem verður til á stjórnlagaþinginu kemur stjórnarskrá handa allri þjóðinni. Hver hefur sagt að nú sé í gildi stjórnarskrá sem sé ekki stjórnarskrá allra Íslendinga? Svona mega menn bara ekki tala, það er rangt að tala svona og er ekki til þess fallið að ýta undir það mál sem hér er til umræðu.

Nokkuð er um það rætt í nefndarálitinu — ég ætla stuttlega að grípa inn í það í upphafi, hvað varðar stjórnlagaþingið, kem svo aftur að því síðar í ræðu minni. Ég ætla að vitna hér í nefndarálitið þar sem fjallað er um stjórnlagaþing, með leyfi forseta:

„Í drögum að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem er fylgiskjal með frumvarpi til stjórnskipunarlaga er lagt til að kosið verði persónukjöri á þingið. Meiri hlutinn leggst ekki gegn slíkri kosningu en áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar. Ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mun verða stjórnarskrá þjóðarinnar allrar. Enda þótt aðkoma almennings alls verði tryggð, t.d. með opnum fundum, upplýsingagjöf og málþingum og að auðvelt verði að senda inn umsagnir, þarf jafnframt að tryggja að á þinginu sjálfu sitji þjóðin öll eða fulltrúar hennar. Meiri hlutinn telur því mikilvægt að reglur um persónukjör verði með þeim hætti að tryggt verði að fulltrúar landsbyggðar og landshluta fái sæti, hvort sem það verður gert með ríkari reglum um kjör eða reglum um einhvers konar jöfnunarsæti. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að reglur um kjörið verði með þeim hætti að tryggt verði eins og hægt er jafnt kynjahlutfall á þinginu.“

Það er margt mjög sérkennilegt sem kemur fram í þessum orðum. Til dæmis er nánast látið liggja að því að þetta sé einhvern veginn allt öðruvísi á Alþingi, að það sé ekki svo á Alþingi að aðkoma almennings sé tryggð, að það séu ekki opnir fundir á Alþingi, að það sé ekki auðvelt að senda inn umsagnir þegar allt þetta, herra forseti, er náttúrlega ekki rétt. Það er einmitt þannig á þinginu að það er talað hér í opinni málstofu, þessu er öllu sjónvarpað, auðvelt að senda umsagnir og nú hefur forsætisnefnd gengist fyrir opnum fundum í nefndum. Allt er þetta mjög opið og skilvirkt en það verður víst þannig á þessu stjórnlagaþingi að það virðist eiga að verða enn þá opnara og skilvirkara án þess að nokkuð sé hægt að sjá að svo verði. Mér finnst vera pínulítill blekkingartónn í þessu.

Síðan kemur þetta með að það þurfi að tryggja fulltrúa landsbyggðar og kynja. Auðvitað er það rétt að það er ágætt að hafa þverskurð af þjóðinni þegar um löggjafarsamkundu er að ræða. En hverjir eru það sem eiga að sitja á stjórnlagaþinginu? Af hverju telja menn að það sé nauðsynlegt að setja stjórnlagaþing? Ef maður reynir að gera sér grein fyrir þeim röksemdum sem gætu legið að baki því að nota stjórnlagaþing til að breyta stjórnarskránni hefði maður haldið að tilgangurinn væri sá að á þetta þing veldust þeir sem hefðu sérstakt vit á stjórnarskipunarlögum. Ef menn eru sammála því að þetta þing hafi það hlutverk með höndum að einbeita sér að breytingum á stjórnarskránni er afar vandséð að í því tilviki eigi sjónarmið landsbyggðar og kynja endilega að eiga við umfram eitthvað annað. Það þyrfti fyrst og fremst að vera efni frumvarpsins sem út úr kemur sem máli skiptir.

Svo er líka önnur hugmynd sem kviknar þegar maður veltir stjórnlagaþinginu fyrir sér og ég vil taka fram, eins og ég gerði í 1. umr., að mér finnst þetta mjög áhugaverð hugmynd. Mér finnst það mjög áhugaverð hugmynd að ræða hvort hægt sé að breyta stjórnarskránni með einhverjum öðrum hætti en við höfum gert og stjórnlagaþing gæti verið athyglisverður kostur á margan hátt. Það hefur bara enginn haft tækifæri til að íhuga þann kost. Þetta hefur ekki verið rætt í stofnunum samfélagsins. Þetta hefur afskaplega lítið verið rætt á vettvangi lögfræðinga og þeirra sem hafa vit á stjórnskipunarrétti. Þetta ber mjög brátt að. Eins og sagði áðan þá var frumvarp framsóknarmanna rætt hérna 17. febrúar og má segja sem svo að þá fyrst hafi umræðan um stjórnlagaþingið hafist. Og nú, 4. apríl, er verið að sannfæra okkur um að við eigum hreinlega að ganga frá málinu.

En hvað er það sem segir okkur að á þessu stjórnlagaþingi verði betri mæting í þingsali en hér, herra forseti? Því það vill svo til að Alþingi Íslendinga er líka stjórnlagaþingssamkunda. Ef marka má áhuga hv. þingmanna á að ræða stjórnarskrána í þingsal — þótt það fari töluvert mikið fyrir því annars staðar — þá spyr maður sig að því hvort það verði endilega svo að áhuginn á stjórnlagaþinginu verði þannig að þar verði alltaf þéttskipaðir bekkir. Ég sé það ekki endilega fyrir mér að svo verði. Ég skil í raun og veru ekki alveg muninn á þessu, hvað þetta varðar.

Það hefur verið rætt um það um langa hríð á vettvangi lögfræðinnar og á vettvangi réttarheimspekinnar og margra þeirra sem hafa áhuga á því hvernig stjórnarskránni eigi að breyta og hvernig eigi að endurskoða hana, að ástæða sé til að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar. Það er enginn maður hérna inni sem er ekki sammála því að það þurfi að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar. Ef við næðum samkomulagi um að breyta henni núna, t.d. í vor, þá væri strax eftir örfáar vikur hægt að fara í það að setja af stað vinnu með allar aðrar breytingar sem menn mundu vilja gera á stjórnarskránni og síðan í kjölfarið fara með það fyrir þjóðina.

Ég sé fyrir mér einn ákveðinn vanda við að samþykkja breytingu á stjórnarskrá í einu lagi. Segjum sem svo að við værum á stjórnlagaþingi og ákveðið frumvarp væri komið fram. Það gæti þess vegna hafa orðið einhver málamiðlun hér í þingsölum þannig að Alþingi væri ekki haft svona út á túni heldur fengi að hafa einhverja aðkomu að þessu stjórnlagaþingi. Segjum að við værum búin að komast að þeirri niðurstöðu að það væri ekki boðlegt að stjórnlagaþingið hefði um þetta einvald heldur ætti að nýta Alþingi Íslendinga sem hefur frá 930, náttúrlega ekki í heilu lagi, en hefur frá stofnun og meðan það hefur starfað verið talið fullgott til þess að breyta stjórnarskránni. Segjum að þetta hafi allt saman gengið eftir og fyrir liggi stjórnarskrá íslenska lýðveldisins sem ætti að bera undir kosningabæra menn í landinu. Það geta verið einstök atriði í þessu heila frumvarpi sem menn hafa afskaplega skiptar skoðanir um. Þarna eru t.d. mikilvægir mannréttindakaflar. Þarna getur orðið gríðarlegur ágreiningur um hvernig er farið með þrískiptinguna. Það hafa verið uppi áform um það að kjósa framkvæmdarvaldið beint. Menn hafa skoðun á ýmsum hlutum varðandi kirkjuna. Eigum við að vera með þjóðkirkju? Hvað með forsetann? Hvað eigum við að gera út af auðlindunum? Vilja menn setja inn ákvæði, eins og voru í upphaflegu frumvarpi, út af sjálfbærri þróun og slíkum hlutum? Það getur vel verið að það komi fram heilt frumvarp, sem sagt ný tillaga að stjórnarskrá og þá þarf að bera hana upp í heilu lagi. Það þarf að bera hana upp til þjóðarinnar í heilu lagi.

Mér finnst það verulegur galli að einstakir kaflar eða einstakir þættir stjórnarskrárinnar séu ekki settir í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. að hún sé endurskoðuð koll af kolli. Ég hefði miklu frekar viljað sjá að menn gerðu breytingar á þrískiptingunni og leggðu það undir þjóðaratkvæði. Þá kæmi auðlindaákvæðið, þjóðareign á auðlindum og það yrði borið undir þjóðina hvort hún samþykkti það eða synjaði. Það væri ákvæði um ýmis mannréttindaákvæði. Þau yrðu borin undir til samþykkis eða synjunar. En ekki þannig að þetta kæmi allt í heilu lagi vegna þess að ef stjórnarskráin yrði felld í þjóðaratkvæði þá gæti hún verið felld af svo mörgum ástæðum. Það gætu verið svo margir þættir í frumvarpinu sem yllu því að hún yrði felld.

Það er ekkert sem kemur fram í þessu frumvarpi eða nefndaráliti eða neinum gögnum, hvergi í gögnum nefndarinnar og nú tek ég fram að ég sat ekki í nefndinni en ég hef hins vegar hlustað á umræðurnar, en þessu máli hefur eiginlega ekkert verið hreyft í umræðunum, þ.e. hvernig eigi að bera stjórnarskrána upp. Ég hef heldur ekki heyrt nein sjónarmið um það af hálfu flutningsmanna meirihlutaálitsins eða annarra, um það að menn hafi velt fyrir sér hvernig ætti að bera hana upp. (Gripið fram í: Þetta var rætt í …) Rætt í nefndinni en þetta hefur ekki verið rætt í málstofunni hér vegna þess að menn hafa ekki sérstaklega mikinn áhuga á því að halda ræður hér í málstofunni og greina frá því hvað hefur farið fram í nefndinni. (Gripið fram í: Það hafa verið haldnar langar ræður.)

En þetta er samt sjónarmið sem mér finnst að væri mjög mikils virði að ræða. Þetta er atriði sem getur skipt verulegu máli í því hvernig með þetta plagg fer. Og þetta segi ég alveg án tillits til þess hvers konar stofnun eða fyrirbæri það er sem mun ljúka samningsgerð á stjórnarskránni. Það liggur alveg fyrir í mínum huga, og það hef ég sagt margoft áður að þar deili ég skoðunum með öðrum sjálfstæðismönnum og mörgum öðrum trúi ég, að það væri náttúrlega miklu betra að það væri Alþingi sem endanlega gengi frá tillögu að breytingu á stjórnarskránni. Og að stjórnlagaþingið verði ráðgefandi eða með einhverjum hætti gæti hugsanlega verið þar til ráðgjafar hvernig sem úr því yrði leyst og síðan yrði það Alþingi sem kæmi og það væri forseti Alþingis sem bæri málið upp á þinginu til samþykktar eða synjunar og síðan í kjölfarið færi það í þjóðaratkvæði.

Mér finnst þetta bara dæmi um að við eigum eftir að vinna í þessu. Þetta er bara dæmi um hluti sem við eigum eftir að hugsa vegna þess að hraðinn hefur verið mjög mikill á málinu. Líka vegna þess að það eru önnur mál sem hvíla á þingmönnum, mikilvæg mál sem hvíla á þingmönnum, þá finnst mér eðlilegt að menn sýni stjórnarskránni þá lágmarksvirðingu að þetta mál fái tíma til að þroskast og þetta sé skoðað til lengri tíma.

Nú hefur þetta mál verið í umræðu á Alþingi frá 17. febrúar 2009 og nú er komin þriðja útgáfan af stjórnlagaþingi. Fyrst kom frumvarp framsóknarmanna þar sem mjög langt var gengið í því að taka vald Alþingis til hliðar og færa það algerlega í hendur á stjórnlagaþingi og raunar var það þannig í því frumvarpi að aðkoma Alþingis var faktískt engin. Hluti af því var að þar var gert ráð fyrir að 63 þingmenn væru starfandi á þeirri samkundu og því fyrirsjáanlegt að við yrðum með gríðarlega marga þingmenn starfandi á ákveðnu tímabili.

Þessu var breytt þegar frumvarp til breytinga á stjórnarskipunarlögum var lagt fram á ný eftir töluverða vinnu á vettvangi forsætisráðuneytisins, eftir því mér skilst, þar sem til voru kallaðir sérfræðingar á sviðinu og búið er að breyta töluvert af þeirri útgáfu af stjórnlagaþingi. Það var komin einhvers konar aðkoma Alþingis, takmörkuð mjög en það var a.m.k. farið að nefna Alþingi á nafn. Það var búið að koma Alþingi inn fyrir dyrnar þannig að væntanlega yrði hægt að halda áfram að ræða það í nefndinni.

Í stjórnarskrárnefndinni voru menn greinilega á þeirri skoðun að það væri allt í lagi að hleypa Alþingi pínulítið lengra. Framsóknarmenn eru því komnir með þriðju útgáfuna af stjórnlagaþingi og það er óhætt að segja að það hafi töluvert breyst. Ég segi að það hafi breyst mjög til batnaðar og það er að þroskast og það þarf að þroskast meira. Það þarf að fá að þroskast betur og við þurfum að ræða þessi mál betur. Við þurfum að tala betur saman um hvernig eigi að gera þetta. Númer eitt, tvö og þrjú eigum við að gæta að virðingu Alþingis, þeirrar löggjafarsamkundu og sem við höfum unnið heit að. Við eigum alltaf að gæta virðingar Alþingis. Því þótt margt hafi farið úrskeiðis hér í landi megum við ekki að láta það bitna á þeim sem síst skyldi.

En framsóknarmennirnir hafa greinilega áttað sig á því að það væri allt í lagi að hleypa Alþingi að borðinu. Ég vonast til þess að framsóknarmennirnir sem hafa hlustað nokkuð á umræðurnar, sérstaklega hefur hv. þm. Birkir J. Jónsson verið hér nokkuð sem einn af flutningsmönnum og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, formaður stjórnarskrárnefndar, hefur einnig hlustað á umræðurnar, að þau heyri þau sjónarmið sem hér hafa komið fram varðandi stjórnlagaþingið og líti ekki svo á að gagnrýni á stjórnlagaþingið sé einungis gagnrýni á Framsóknarflokkinn eins og hefur látið nærri, að það mætti ekki anda á þetta stjórnlagaþing því þá væri verið að gera lítið úr Framsóknarflokknum og drepa hann og þetta yrði svo erfitt hjá Framsóknarflokknum í kosningum o.s.frv.

Þetta er bara tómur misskilningur. Það er ástæða til þess þótt menn hafi fengið einhverja hugmynd einhvers staðar að átta sig á því að hér sitja 63 þingmenn sem allir eiga að eiga það sameiginlegt að bera stjórnarskrána fyrir brjósti. Það er allt í lagi fyrir framsóknarmenn að reyna að komast að samkomulagi við aðra þá sem eru á þessu þingi jafnvel þótt þeir séu í stjórnarandstöðu. Það er ekkert athugavert fyrir Framsóknarflokkinn, það er allt í lagi. Svo ég reyni nú að höfða til þeirra betri vitundar.

En ég átta mig samt ekki á því hvernig þetta frumvarp er í raun og veru byggt upp. Af hverju er það svo að það eru efnislegar breytingar á stjórnarskránni um leið og stjórnlagaþingið er lagt til? Ég trúi ekki að það sé vegna þess að menn hafi haldið að stjórnlagaþingið næði ekki fram að ganga og þess vegna væri öruggara að hafa efnislegar greinar með. En það dugar ekki til. Það er búið að liggja fyrir langan tíma að flokkar á Alþingi eru sammála um breytingar á 79. gr. stjórnarskrárinnar. Menn er sammála að þörf sé á að breyta henni. Þess vegna hefði ég haldið að það væri í sjálfu sér nóg núna að láta það duga að breyta henni. Við munum hvernig núverandi 79. gr. hljómar, með leyfi forseta:

„Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki […] skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki [Alþingi] ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.“

Hér er látið í það skína að hægt sé að halda sérstakt auka-Alþingi til að breyta stjórnarskránni, 79. gr. geymir í sér ákveðinn stjórnlagavinkil. En auðvitað erum við sammála um að þetta er allt of þungt í vöfum, það er alveg rétt. Margar breytingar á stjórnarskránni hafa verið vel gerðar, sérstaklega árið 1995 þegar gerð var gríðarlega mikilvæg breyting á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Það var mjög vel unnin vinna, mjög vel gert og það voru tekin ákvæði sem skipta miklu fyrir stjórnarskrána, sem leggja áherslu á hversu mikið mannréttindaplagg stjórnarskráin er. En þess vegna og ekki síst þess vegna skiptir svo miklu máli að farið sé með gát í breytingar á henni.

Ég hef ekki almennilega áttað mig á því hvað það er sem menn eru sammála um að breyta, þ.e. að menn séu sammála um að það þurfti að breyta öllu í stjórnarskránni. Ég held því t.d. fram að mannréttindakaflinn sé vel skrifaður og mjög nýtilegur til lengri tíma. Ég held að þeir þættir sem hafa keyrt fram þessa miklu sókn framsóknarmanna á stjórnlagaþingi séu kannski fyrst og fremst til að svara kalli um einhvers konar breytingar, einhvers konar kollvörpun vegna þess að við lentum inni í þessum óskaplega ólgusjó. Ég geri ekki lítið úr því. Ég geri ekki lítið úr því að menn hafi misst fótfestuna á margan hátt og menn vilji þá gera upp við allt og alla. En það hjálpar okkur ekkert, ofan á þá kreppu sem við erum í að bjóða upp á stjórnlagakreppu. Það er ekkert betra að fara af stað með breytingar á stjórnarskránni án þess að vita í hverju breytingarnar eiga að felast. Og í þeim atriðum sem fram koma í frumvarpinu eru leiðbeiningar um hvað eigi að gerast á þessu stjórnlagaþingi afar rýrar. Það er mjög rýr kafli.

Við þingmenn höfum ekki komið okkur saman um það, ef af þessu yrði og við ættum að fara að greiða atkvæði um þetta, hvað það er sem við viljum fá út úr stjórnlagaþinginu annað en „eitthvað annað“. Þá vil ég bara benda á að það er svo margt í stjórnarskránni sem er í fínu lagi. Þá komum við aftur að því hvernig við ætlum að velja inn á stjórnlagaþing. Og einnig að því sem ég sagði áðan, að ef menn eru farnir að velta fyrir sér að það eigi að endurspegla Alþingi, endurspegla kjördæmaskipan, eins og kemur fram í nefndarálitinu, þar sem fram kemur að gæta þurfi að landsbyggðarsjónarmiðum og ýmsu öðru og hlutfalli á milli, eða speglun af Alþingi réttara sagt — ég leiðrétti mig, þetta var ónákvæmt orðalag — þá held ég að við séum pínulítið að ruglast í því að þetta þing hefur svo sérstakt hlutverk. Svo sérstakt, afmarkað hlutverk. Það á ekki að fjalla um þau mál sem almennt eru í umræðunni. Það á að fjalla um grundvallarlöggjöf landsins og til þess þurfum við fólk sem getur gert það.

Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi og hef greint frá henni að í sjálfu sér sé æskilegt að Alþingi Íslendinga hafi hjá sér eða undir sér einhvern veginn til hliðar einhvers konar ráðgjafarhóp sem hefur það sérstaka verkefni að skoða stjórnarskrána sem kemur síðan aftur inn í þingið til meðferðar.

Ég held að mjög gott sé að þetta verði lítill hópur, þetta á að vera fámennur hópur sérfræðinga. Hér er mikið talað og mönnum þótti mjög mikilvægt að gera breytingar í vetur — þótt þær hafi verið annars eðlis, ætla ég samt að nefna þær — og fannst að gott væri að hafa peningastefnunefnd til að gæta að peningastefnunni í landinu og vera vakandi yfir henni. Þá er ekkert vitlaust að við sjáum fyrir okkur einhvers konar réttarfarsnefnd á vegum þingsins sem velti fyrir sér því hvernig eigi að fara með breytingar á stjórnarskránni. Þetta er bara eitt innlegg inn í þá umræðu sem hér er, bara til að benda á að svo margir afkimar eru í þessu máli sem við höfum ekki velt nógu mikið fyrir okkur. Ég geri bara þá kröfu til okkar þingmanna að við séum svo vel heima í málinu og höfum velt því það mikið fyrir okkur að við getum með góðri samvisku látið frá okkur eitthvert frumvarp handa þjóðinni til að kjósa um.

Berlega kemur fram í umsögnum um málið að menn höfðu miklar áhyggjur af því. Það er kannski einkum tvennt sem menn höfðu áhyggjur af, í fyrsta lagi hvað umsagnarfresturinn var stuttur. Mönnum þótti erfitt að þurfa að svara erfiðum spurningum og veita umsögn um stjórnarskrána á örfáum dögum og það ber að taka undir það að ekki er hlaupið að því að skila vandaðri umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga á örstuttum tíma og það finnst mér slæmt. Í öðru lagi kom fram í umsögnunum að óráð væri að breyta stjórnarskránni án þess að um það hafi farið fram almenn umræða í samfélaginu. Fræðasamfélagið á sviði lögfræði fylgir ekki með í þessari umræðu núna.

Það er ágætisumsögn hér frá Ragnhildi Helgadóttur, prófessor í Háskólanum í Reykjavík, sem hefur sérhæft sig í stjórnarskipunarrétti, þar sem hún fer að mínu mati mjög vel yfir þennan vanda sem við blasir.

Ég ætla að vitna í hana, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrár eru ólíkar öðrum lögum að setningarhætti og vegna þess að þær eiga að leggja stórar línur og vera hafnar yfir pólitískar deilur á hverjum tíma. Vegna þessa eðlis stjórnarskráa breytast þær oft hægt, eru gjarnan gamlar í ríkjum með gamla lýðræðishefð og breytingar á þeim eru tiltölulega sjaldgæfar. Á grundvelli alls þessa er það skoðun mín að það væri afar óheppilegt ef nú yrði vikið frá þeirri hefð að breið samstaða allra flokka sé um breytingar á stjórnarskrá.“

Síðan segir Ragnhildur Helgadóttir áfram um 2. gr. frumvarpsins — ég skal taka það fram og kannski aðeins koma því að núna að frumvarpið er nokkuð mikið breytt frá því að það var sent út til umsagnar. Stjórnarskrárnefndin hefur gert töluverðar breytingar á því og má segja að allt varðandi Árósasamninginn hafi verið fellt út úr 1. gr. Breytingar hafa verið gerðar á (Gripið fram í.) frumvarpinu og komið hefur verið til móts við ýmsa hópa, t.d. meginþorra umsagnaraðila því sjónarmið þeirra studdu sjónarmið sjálfstæðismanna sem lítið komu að þessari vinnu. Breytingar hafa verið gerðar á öðrum greinum frumvarpsins og búið er að gera grundvallarbreytingar á 4. gr. um stjórnlagaþingið.

Fram kemur hér út af 4. gr. vegna stjórnlagaþingsins, með leyfi forseta:

„Tillaga frumvarpsins um stjórnlagaþing er skynsamleg út frá því sjónarmiði að á Íslandi hefur aldrei farið fram sú umræða um stjórnarskrána, sem menn telja hollt þjóðum að fara í gegnum og sem stefnt var að því að yrði farið í gegnum fljótlega eftir lýðveldisstofnun. Það er hins vegar eindregin skoðun mín, að stjórnarskráin hafi virkað vel á lýðveldistímanum. Vissulega á ýmis gagnrýni — þar á meðal á óljósa stöðu forseta og á stöðu Alþingis — rétt á sér en bæði eru ýmis þeirra atriða nýtilkomin og svo eru þau ekki endilega grundvallaratriði. Breyting á því hvort ráðherrar sitji á þingi (sem má breyta án stjórnarskrárbreytingar) eða hvort skuli standa í stjórnarskrá að forseti geri þjóðréttarsamninga, þegar það er í reynd ráðherra, eru síst meiri grundvallaratriði heldur en það þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður í heild sinni. Það er eindregin skoðun mín að það eigi að breyta ákveðnum hlutum stjórnarskrárinnar; fyrst og fremst ákvæðunum um forseta Íslands og hugsanlega ákvæðum um tengsl Alþingis og framkvæmdarvalds. En ég mótmæli því að það sé þörf á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar efnis hennar vegna. Flestir eru sammála um að þó margt kunni að hafa brugðist undanfarin ár þá sé stjórnarskráin ekki eitt af því.

Það kann vel að vera að það sé rétt sé að setja á fót stjórnlagaþing til þess að nú fari í gang áðurnefnd umræða um stjórnarskrána. En það hlýtur þá að byggja á því að menn vilji fá umræðuna fram, ekki vegna þess að stjórnarskráin hafi brugðist. Með því að setja í gang heildarendurskoðun má reikna með að markmiðið um umræðu um stjórnarskrána náist, en á móti mun væntanlega tapast eitthvað af hefðinni og hefðbundnu helginni sem á henni hvílir. Sömuleiðis þarf þá að velta því fyrir sér hvernig eigi að útfæra stjórnlagaþingsleiðina þannig að umræðan verði sem víðtækust og best.“

Ragnhildur bendir enn fremur á nokkur atriði sem þarf að hugsa betur, með leyfi forseta;

„Í fyrsta lagi bendi ég á hlutverk þingsins. Það er spurning hversu heppilegt það er að fá 41 kjörnum fulltrúa í hendur það verkefni að skrifa nýja stjórnarskrá án þess að þeir beri á því nokkra ábyrgð, lagalega eða pólitíska.“

Hér finnst mér Ragnhildur Helgadóttir koma að mjög mikilvægu atriði. Mér finnst það mjög mikið athugunarefni og vona að það sé eitt af því sem komi út úr þessum umræðum hér um stjórnarskrárbreytinguna. Er heppilegt að Alþingi láti stjórnarskrárvald sitt af hendi til annars þings sem sendir það svo til þjóðarinnar en ber enga sérstaka lagalega eða pólitíska ábyrgð á því, nema svona einsskiptisábyrgð. Pólitíska ábyrgðin er nefnilega mjög mikilvæg líka þegar um stjórnarskipunarlögin er að ræða.

Síðan segir Ragnhildur í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi vísa ég til orðalags 1. mgr. ákvæðisins um að „byggt verði áfram á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda.“ Ákveði stjórnlagaþingfulltrúar að hunsa þessi tilmæli og fái tillaga þeirra hljómgrunn í þjóðaratkvæðagreiðslu skipta þessi ummæli í ákvæðinu engu. Þessu ákvæði verður breytt eða það fellt út með nákvæmlega sama hætti og öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar.“

Nú á ég ekki von á því að þetta sé aktúelt vandamál, ég á ekki von á því að þeir fulltrúar sem veljist á stjórnlagaþingið muni ýta til hliðar þeim sjónarmiðum sem við höfum öll verið sammála um. Áhyggjur mínar beinast ekki að því. Þær beinast miklu frekar að því að leiðbeiningar handa stjórnlagaþingi séu skýrar og ef við kæmumst að þeirri niðurstöðu að stjórnlagaþing ætti að vera ráðgefandi, ef við kæmumst að þeirri niðurstöðu að lítill hópur manna, til þess að gera, hefði það verkefni að koma með tillögur til Alþingis að nýrri stjórnarskrá væri ekkert óeðlilegt að þingið hefði ákveðnar skoðanir á því hvað ætti að vera grundvallarsjónarmið sem ekki mætti hvika frá. Þar vil ég meina að menn yrðu að gæta að mannréttindakaflanum og ákveðnum hlutum í honum.

Þriðja atriðið, hæstv. forseti, sem mig langaði að nefna úr umsögn Ragnhildar Helgadóttur er það hvernig við eigum að meðhöndla samspil stjórnlagaþingsins og Alþingis. Ég held að það sé akkúrat þetta atriði sem hvað mestum deilum hefur valdið meðal þingmanna, hvernig á að meðhöndla sambandið á milli stjórnlagaþings og Alþingis. Hvar eru skilin á milli? Hversu langt viljum við ganga í því að setja stjórnarskrárvaldið og annað?

Ragnhildur Helgadóttir segir um þetta atriði:

„Ein þeirra breytinga sem minnst er á í greinargerð snýr að því að styrkja stöðu Alþingis. Það er hins vegar athugunarefni hvort það verði til frambúðar til þess að styrkja þingið að taka frá því hlutverkið sem stjórnarskrárgjafi — jafnvel þó aðeins sé um þetta tilvik heildarendurskoðunar að ræða. Þessi vandi gæti orðið alvarlegur ef það er opinbert að það stjórnarskrárfrumvarp sem lagt verður fyrir þjóðina af stjórnlagaþinginu nýtur ekki stuðnings þingsins. Samráðsferlið, sem gert er ráð fyrir í 4. gr., bætir nokkuð úr, en ég hefði kosið að sjá hlutverk Alþingis enn stærra.“

Við þessu hefur að ákveðnu leyti verið brugðist í breytingartillögu stjórnarskrárnefndarinnar en engu að síður stendur þetta eftir: Erum við að styrkja þingið eða draga úr völdum þess? Hvaða atriði voru það sem við þingmenn sjálfir sem vorum hér innan dyra gagnrýndum hvað mest í haust þegar hrunið varð? Við gagnrýndum, og það átti bæði við um þá sem voru í stjórn og stjórnarandstöðu, að þingið hefði ekki nógu mikil tök á því að komast inn í málið. Við gagnrýndum skipulag þingsins og samspil við framkvæmdarvaldið því það kom mjög berlega í ljós að það þarf að styrkja þingið. Um þetta held ég að allir í þessum sal séu sammála, allir, að þingið hafi með einhverjum hætti orðið eftir eða aldrei hafi verið nógu skýrt með það farið og það þurfi að laga.

Þá er spurningin: Af hverju reynum við ekki að breyta því hér á þinginu? Af hverju reynum við þingmenn ekki sjálfir að takast á við það vandamál? Af hverju ákváðum við að setja það í hendurnar á stjórnlagaþinginu vegna þess að það mætti líka segja að þetta sé eins konar „alibí“ fyrir okkur að þurfa ekkert að taka á málinu. Ég held að jafnvel þótt þingið muni gefa umsögn um þetta stjórnlagaþing, ef þetta frumvarp nær fram að ganga — sem ég vona ekki — sé það samt ekki sú umræða sem maður hefði viljað sjá og í raun og veru það sem við eigum að vera að gera hér á þinginu vegna þess að náttúrlega er alveg ljóst að það er grundvallarverkefni Alþingis Íslendinga að standa að stjórnarskránni.

Það komu náttúrlega fjölmargar umsagnir, ég ætla ekkert að fara neitt ítarlega ofan í þær, þær eru aðgengilegar á vef þingsins og margar mjög fróðlegar. Margar umsagnirnar snúa að auðlindaákvæðinu sem hefur verið mikið bitbein hér um langa hríð. Ég veit að skiptar skoðanir eru um þetta mál víða en ég ætla að segja fyrir mig að ég held að málið sé ekki þannig að ekki sé hægt að ná samkomulagi um það. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sjálfur þegar lagt fram ákveðna leið í því og árið 2007 kom fram frumvarp þar sem flutningsmennirnir tveir voru sjálfstæðismaður og framsóknarmaður. Þetta hefur verið mikið rætt á vettvangi Sjálfstæðisflokksins og ég held ekki að þetta sé slíkt bitbein að ekki sé hægt að ná samkomulagi um það. En það er greinilegt að ákvæði 1. gr. hvílir mjög mikið á umsagnaraðilum og þær málsgreinar sem nú hafa verið felldar út úr frumvarpinu hvíldu mjög mikið á þeim og ekki er ástæða til að orðlengja um það hér. Það eru hins vegar færri sem taka til svara vegna stjórnlagaþingsins, að hluta til vegna þess að færri umsagnaraðilar komu að því og að hluta til vegna þess að það er ekki heiglum hent að svara og gefa ítarlega umsögn um stjórnlagaþing á örfáum dögum og varla hægt að bjóða upp á það.

Laganefnd Lögmannafélags Íslands tekur á því í umsögn sinni og þetta er ekki í fyrsta skipti í vetur — og það á líka við tíð fyrri ríkisstjórnar og ég ætla ekki að gera lítið úr því — sem laganefnd Lögmannafélags Íslands sendir hörð bréf til þingsins um það hvernig farið er með breytingar á lögum. Grein Róberts R. Spanós sem hv. þm. Björn Bjarnason las upp úr hér áðan er afar mikilvæg þegar horft er til þess hvaða hættur geta orðið þegar lögum er breytt hratt. Löggjafarvaldið og samspil þess og réttaröryggis er nokkuð sem þarf að fara gætilega með. Laganefndin hefur ítrekað í vetur, alveg frá því í haust, gagnrýnt mjög harkalega að Alþingi hleypi breytingum á mikilvægri löggjöf mjög hratt í gegn.

Ég ætla að lokum rétt aðeins að grípa niður í umsögn laganefndarinnar, með leyfi forseta:

„Laganefnd telur ákveðna þversögn felast í því að gera efnisbreytingar á stjórnarskránni og á sama tíma koma á fót stjórnlagaþingi sem á að semja nýja stjórnarskrá.“

Síðan segir í niðurlaginu:

„Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar. Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“

Þetta finnst mér rödd sem er mikilvægt að á sé hlustað hér á landi.

Það er nokkuð sem kom mér dálítið á óvart þegar ég las nefndarálitið og breytingartillögurnar og mig langar og hefði áhuga á að fá skýringar á. Nú hefur verið tekin sú ákvörðun, að mér skilst og sýnist á þessu, að stjórnlagaþing eigi ekki að taka til starfa fyrr en um mitt ár 2010. Ef það er sjónarmið nefndarmanna að ekki sé þörf á því að stjórnlagaþingið taki til starfa fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningar árið 2010 skil ég ekki af hverju liggur svona mikið á að ákveða það núna. Ég skil það bara ekki. Þá sé ég engin rök með því að þetta stjórnlagaþing eigi að vera ásteytingarsteinn hér ef menn í nefndinni eru sammála um að það komi ekki til fyrr en árið 2010.