136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins vegna síðustu orða og spurningar hv. þingmanns, það háttaði svo til að ég sat fund í stjórnlaganefnd fyrir hv. þm. Atla Gíslason þegar einmitt þetta atriði var til umræðu, hvers vegna meiri hluti nefndarinnar gerir þá tillögu að stjórnlagaþing taki ekki til starfa fyrr en 17. júní 2010. Fyrir því eru í rauninni tvær ástæður, annars vegar sú að eðlilegt sé, líka kostnaðarins vegna, að kjósa til stjórnlagaþings um leið og gengið verður til sveitarstjórnarkosninga á næsta ári. Það þykir einfaldara og ódýrara og það er rétt að það komi fram að fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem komu fyrir nefndina og ræddu þetta gerðu fyrir sitt leyti ekki athugasemdir við að slík kosning færi fram samhliða sveitarstjórnarkosningum.

Hin röksemdin með þessu er í rauninni sú að með breytingartillögunum er styttur starfstími stjórnlagaþingsins niður í eitt ár. Gert er ráð fyrir að það skili af sér á einu ári í stað lengri tíma áður. Þar með er í rauninni ekki verið að flýta niðurstöðum vinnunnar, heldur er gefið betra tóm til undirbúnings því að gert er ráð fyrir því að settur verði lagarammi bæði um stjórnlagaþingið sem slíkt og um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem slíka og líka samkvæmt 3. gr. Þetta gefur færi á vandaðri undirbúningi en frestar ekki áformuðum lokum stjórnlagaþings sem upphaflega var talað um.