136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:47]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að koma með þessar upplýsingar inn í umræðuna. Kostnaðurinn við upphaflegt stjórnlagaþing var svo gígantískur að það var ekki nokkur leið fyrir flutningsmenn að koma fram með frumvarpið í óbreyttum búningi með 2,1 milljarðs kostnaði við stjórnlagaþing. (Gripið fram í: … á móti.) Fyrir utan það að skilvirknin var engin í slíkri tillögu.

Ég skil þessi efnahagslegu rök, ég skil að menn hafi reynt að skera niður kostnað. Ég skil að það geti verið betra umhorfs í þjóðfélaginu 2010 en fyrst að menn vilja undirbúa málið betur — sem er gott — eftir að það hefur verið samþykkt í þinginu skil ég ekki af hverju ekki má geyma þetta mál fram yfir kosningar til að Alþingi geti rætt betur um það hvernig stjórnlagaþinginu eigi að vera háttað ef menn vilja fara þá leið. Það verður að segjast eins og er að við erum að fara alveg rosalega köld inn í þessa umræðu, flest okkar ef ekki öll, um stjórnarskrána núna.

Þegar menn hafa hérna gígantískar áhyggjur af efnahag þjóðarinnar erum við að fara mjög bratt inn í það að breyta stjórnarskránni. Ég verð að segja fyrir mig að ég hefði haldið að með því að breyta 79. gr. núna gæfum við nýju Alþingi frítt spil til að breyta því sem það kýs í stjórnarskránni og setja beint í þjóðaratkvæði. Í raun og veru held ég að menn átti sig ekki á því hversu spennandi leið það er að breyta 79. gr. og láta þar við sitja.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa veitt þetta andsvar. Það er meira en margir hafa gert í þessari umræðu.