136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

fundarstjórn forseta.

[21:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta vegna þess að við sjálfstæðismenn höfum bæði í gær og í dag gert tillögur til forseta um að mál nr. 3–7 á dagskrá yrðu tekin til umræðu á undan stjórnarskipunarlögum, þ.e. að gert yrði hlé á umræðum um stjórnarskipunarlög til að koma að þeim brýnu málum sem eru þar næst á eftir og varða með skýrum og augljósum hætti hagsmuni atvinnulífsins og heimilanna í landinu.

Ég vek athygli hæstv. forseta á því að undir þetta sjónarmið var tekið fyrir stundu í sjónvarpsþætti með leiðtogum stjórnmálaflokkanna. Þar heyrði ég ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, legði áherslu á að þau mál sem eru á dagskrá yrðu tekin fyrir og afgreidd í þinginu. Ég gat ekki skilið orð hans með öðrum hætti en svo að hann (Forseti hringir.) teldi það skyldu þingsins að reyna að koma þessum málum að.