136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi taka undir með þeim félögum mínum sem hér töluðu undir liðnum fundarstjórn forseta þar sem þeir hvöttu til að atvinnumálin yrðu sett á dagskrá hið fyrsta. Ég tel að það sé í rauninni einsýnt að við þurfum að fara í þau mál. Ég held að það sem fram kom í þessum sjónvarpsþætti, sem ég missti nú reyndar sjálf af, gæti verið fyrirboði góðra tíðinda, þ.e. að minnihlutastjórnin sé að sjá að sér varðandi þessi mál. Við vonum það besta alla vega. Við ræðum hér frumvarp ríkisstjórnarinnar til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipulags íslenska lýðveldisins. Hún mælir annars vegar fyrir um reglur er fjalla um vald handhafa ríkisvalds, þ.e. löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds og hins vegar um mannréttindi borgaranna og þær takmarkanir og skyldur sem hvíla á handhöfum ríkisvalds gagnvart almenningi í landinu.

Ég ber mikla virðingu fyrir stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og ég er afar sorgmædd yfir því virðingarleysi sem henni er sýnd af minnihlutastjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, að ekki sé minnst á Framsóknarflokkinn sem ber sannarlega hluta ábyrgðarinnar á því hvernig málum er hér komið.

Ég er nær orðlaus yfir þeim ásökunum sem yfir okkur sjálfstæðismenn hafa dunið á síðustu dögum, ásökunum um málþóf sérstaklega þar sem það er gert tortryggilegt að við komum hér eitt af öðru, 26 þingmenn Sjálfstæðisflokksins og nýtum okkur okkar lýðræðislega rétt til þess að tjá skoðanir okkar um þetta afar mikilvæga mál.

Formaður sérnefndar um stjórnarskrána, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, gekk meira að segja svo langt hér í hádeginu að segja að hún hefði fylgst með umræðunum og yrði nú bara að segja að öll sjónarmið væru komin fram þannig að það þyrfti ekkert að ræða málið frekar. Þannig er nú það. Þannig er öll lýðræðisástin. Formanninum liggur á að klára málið og þá þarf bara ekkert að ræða það frekar. Ég verð bara að segja að ég er kjörinn þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég undirritaði drengskaparheit þegar ég settist á þing og ég tel það eitt af mínum helstu verkefnum sem þingmaður að standa vörð um stjórnskipan Íslands, stjórnarskrána og Alþingi Íslendinga meðtalið. Ég leyfi mér því að segja við hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, frú forseti, að mér er alveg sama þótt hún telji öll sjónarmið fram komin. Ég hef ekkert talað í þessari umræðu og ég hef ekkert tjáð mín sjónarmið og ég tala fyrir mig sjálfa. Ég nefnilega sannfærð um að sagan muni dæma þessa stjórnarskrárbreytingu. Sagan mun dæma þessa stjórnarskrárbreytingu sem fordæmanlegt klúður og vanvirðingu bæði við stjórnarskrá og Alþingi. Þá vil ég að sagnfræðingar framtíðarinnar hafi það skjalfest að sá þingmaður sem hér stendur hafi tekið til máls og komið stjórnarskránni, okkar góðu stjórnarskrá til varnar og hreyft kröftugum mótmælum við því ofbeldi sem við erum hér vitni að í garð stjórnarskrárinnar.

Ég hreinlega neita því að umræður um stjórnarskrárbreytingar geti yfir höfuð talist málþóf. Við þá þingmenn Vinstri grænna sem kunna þá list betur en nokkrir aðrir að viðhafa málþóf eins og við höfum séð hér á síðustu tíu árum í þinginu þá vil ég segja að það er ekki trúverðugt að tala á tyllidögum um lýðræði og mikilvægi þess en reyna svo að hefta málfrelsi manna þess á milli. Ég er hér að taka til máls í fyrsta sinn um þetta mikilvæga mál og þess vegna get ég ekki litið á það sem neitt málþóf.

Staðreyndin er hins vegar sú, og það fer kannski mest fyrir brjóstið á þingmönnum Vinstri grænna og annarra sem styðja við þessa ríkisstjórn, að í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eru 26 einstaklingar. Við erum einn þriðji hluti þingsins og auðvitað tekur lýðræðið tíma. (Gripið fram í.) En hvert okkar (Gripið fram í.) á sinn lýðræðislega rétt og það verða þingmenn minnihlutastjórnarinnar einfaldlega að una við fyrst þeir hafa ákveðið að forgangsraða málum með þessum hætti.

Við höfum nefnilega, frú forseti, gert líka alvarlegar athugasemdir við forgangsröðunina, forgangsröðun minnihlutastjórnarinnar á þinginu og gert ítrekaðar athugasemdir við fundarstjórn forseta um það — nú síðast hér áðan — og við höfum reyndar fengið bágt fyrir það líka og verið sökuð um að þæfa málið í því líka. En mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja að það skuli forgangsraðað með þeim hætti á Alþingi að stjórnarskrárbreyting í ágreiningi — í fyrsta sinn í 50 ár er stjórnarskrárbreyting gerð í ágreiningi — sé tekin fram fyrir mikilvæg mál sem varða hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Það er mér fullkomlega óskiljanlegt og í þessu árferði er það mér enn þá óskiljanlegra.

Ég vek sérstaka athygli á því að breytingarnar á stjórnarskránni hafa enga þýðingu fyrir bráðavandann í efnahagslífinu. Það mun ekkert leysast hér í efnahagslífinu þótt þessar stjórnarskrárbreytingar komi til framkvæmda. Heimilin í landinu finna ekki fyrir því að stjórnarskránni verði breytt með neinum þeim hætti að það verði til batnaðar. Fyrirtækin falla hér því miður hvert af öðru meðan ekkert er gert nema að ræða stjórnarskrárbreytingar og heimilin á landinu hrópa á aðgerðir.

Það er mikilvægt að setja þau mál sem varða þennan risavaxna vanda fyrirtækjanna og heimilanna í landinu í forgang. Við sjálfstæðismenn höfum sagt — og ég ítreka það hér — að við munum hér eftir sem hingað til greiða fyrir þjóðhagslega brýnum þingmálum. En þá verða þau að komast á dagskrá.

Hæstv. forseti Alþingis Guðbjartur Hannesson taldi það í umræðunni fyrr í dag til marks um forgangsröðun okkar sjálfstæðismanna að af því við værum svo mörg á mælendaskrá í þessu máli þá hlytum við að leggja ofuráherslu á þessa stjórnarskrárbreytingar. Hvers konar vitleysa er þetta? Þetta er auðvitað ekkert annað en ómerkileg hártogun af hálfu forseta sem á að vita betur. Við erum margoft og ítrekað búin að leggja til að dagskrá þingsins verði breytt og atvinnumálin svo sem eins og staðfesting á fjárfestingarsamningnum vegna álversins í Helguvík verði tekin fram fyrir á dagskránni. En því hefur ekki í neinu verið sinnt. Þess vegna verðum við og höfum ekkert annað val en að beygja okkur undir dagskrárvald forseta og taka þátt í umræðunum eftir því sem forseti raðar málum á dagskrá. Við höfum ekkert annað val. Ætlast forseti kannski til þess að við föllum frá okkar lýðræðislega rétti til tjáningar um þetta mikilvæga mál? Er það það sem hann er að segja? Er hann að reyna að þvinga okkur til að falla frá orðinu með því að tala svona til okkar og láta okkur halda að við getum þá loksins farið að ræða atvinnumálin? Ég vona svo sannarlega ekki. Við verðum einfaldlega að spila eftir þeim leikreglum sem þingið setur. Við höfum ekkert annað val og þess vegna erum við 26 á mælendaskrá vegna þess að okkur þykir þetta vera það mikilvægt mál að fyrst að það er ómögulegt að koma því aftan við á dagskránni þá verðum við að sinna þessu mikilvæga máli.

Við höfum ítrekað reynt að koma með málamiðlanir varðandi stjórnarskrármálið sjálft og ekki hefur verið hlustað á það frekar en annað þó svo að það gæti að sjálfsögðu greitt fyrir allri málsmeðferð hér á Alþingi. Þvert á það sem minnihlutastjórnarflokkarnir reyna að halda fram þá er Sjálfstæðisflokkurinn ekki andvígur breytingum á stjórnarskránni enda hefur henni verið breytt ítrekað á síðustu árum ekki síst fyrir atbeina Sjálfstæðisflokksins. Við erum hins vegar andvíg óvönduðum breytingum á stjórnarskránni og í ágreiningi, það er tvennt ólíkt.

Það er þess vegna merkilegt að skoða yfirlit yfir stjórnarskrárbreytingarnar árið 1995 sem nefndasvið Alþingis hefur tekið saman. Þar er aðdragandanum og málsmeðferðinni lýst. Ég mundi segja að sú málsmeðferð sem þar er kynnt og þar er lýst sé algerlega til fyrirmyndar. Forsagan er sú að í apríl árið 1994 sendi stjórnarskrárnefnd formönnum þingflokka tillögur um breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Á hátíðarfundi á Þingvöllum 17. júní 1994 var tillaga til þingsályktunar síðan lögð fram af Matthíasi Bjarnasyni, Valgerði Sverrisdóttur, Gunnlaugi Stefánssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni og Kristínu Einarsdóttur. Reyndar getur verið að ég sé að fara rangt með að þetta hafi verið á Þingvöllum, en þetta var lagt fram 16. júní 1994.

Þetta mál fer síðan í farveg og stjórnarskrárnefnd, skipuð fulltrúum allra flokka, fer vel yfir þessi mál. Til að gera langa sögu stutta var leitað eftir umsögnum víða að og mikill tími tekinn í þessar breytingar og meira að segja birtar auglýsingar í dagblöðum þar sem lýst var eftir athugasemdum við frumvarpið. Í desember 1994 og í janúar 1995 eru þessar auglýsingar birtar og var það nýmæli í meðferð þingmála og nefndin var einróma um að þetta hafi verið mjög árangursrík leið til þess að kynna málið og vekja um það umræðu.

Án þess að ég fari nánar út í þessar stjórnarskrárbreytingar vildi ég nefna þetta hér sem dæmi um það hvernig standa skuli að stjórnarskrárbreytingum. Taka í það nægan tíma, fá alla stjórnmálaflokka að borðinu, kalla til álit hagsmunaaðila, gefa almenningi kost á að koma með athugasemdir. Enda var það þannig að þegar tillögurnar urðu að lokum til eftir að þær höfðu tekið nokkrum breytingum voru þær ræddar í tiltölulega stuttan tíma hér á Alþingi vegna þess að allir höfðu haft tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum að og tekið var tillit til þeirra sjónarmiða. Þetta vildi ég sagt hafa vegna þess að þetta er í hrópandi andstöðu við það sem hér er á ferðinni.

Ég ætla að endurtaka einu sinni enn áherslur okkar sjálfstæðismanna og sanngjarna málamiðlunartillögu okkar vegna þess að ég tel að sjónarmið okkar hafi einfaldlega ekki náð í gegn í umræðunni — sem mér þykir mjög miður — þó svo að formaður sérnefndarinnar, eins og ég greindi frá hér að framan, telji sig hafa heyrt öll sjónarmið í málinu.

Sjónarmið okkar eru eftirfarandi: Sjálfstæðisflokkurinn telur þörf á að breyta stjórnarskránni með ígrunduðum hætti og hefur lagt fram tillögur í þeim efnum. Til þess að liðka fyrir slíkum breytingum og skapa svigrúm fyrir vandað verklag teljum við sjálfstæðismenn eðlilegt að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að ekki þurfi að rjúfa þing og fá samþykki Alþingis endurnýjað til þess að stjórnarskrárbreytingar taki gildi.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins kveður á um að breytingar á stjórnarskrá eigi að leggja fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef sú leið yrði farin á yfirstandandi þingi og samþykki Alþingis fengist endurnýjað eftir kosningar verður hægt að setja hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá í vandaðan farveg og leggja þær svo í dóm þjóðarinnar án þess að rjúfa þing. Við erum með öðrum orðum að leggja það til að auðveldara verði að gera breytingar á stjórnarskránni að því marki að ekki þurfi tvennar kosningar til. Þetta er grundvallarbreyting og ætti undir eðlilegum kringumstæðum að duga til sátta.

Fjölmargar umsagnir bárust um þetta mál og í þessu sambandi vil ég fá að lesa upp úr ítarlegri umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar er m.a. rætt um þetta atriði og þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrá lýðveldisins er grundvallarlöggjöf þessa lands sem öllum ber að virða. Þannig er stjórnarskránni ætlað að vera hafin yfir dægurþras og sveiflur í stjórnmálum. Vegna mikilvægis stjórnarskrárinnar er nauðsynlegt að stjórnarskipunarlög séu sett að vel ígrunduðu máli og í sem mestri sátt. Af umræðu um frumvarpið má ráða að endurskoðun stjórnarskrárinnar sé nauðsynleg vegna þess efnahagshruns sem hér hefur orðið. Þær breytingar sem felast í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga virðast hins vegar ekki sérstaklega til þess fallnar að stuðla að endurreisn efnahagskerfisins og væri því eðlilegt að bíða með allar meiri háttar breytingar þar til um hægist í þjóðfélaginu. Stutt er til þingkosninga og styður það enn frekar þá kröfu að ekki verði ráðist í svo veigamiklar breytingar nú. Það kynni þó að vera lausn á málinu að einungis yrði gerð sú breyting sem felst í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins en þar er kveðið á um þjóðaratkvæðagreiðslu til staðfestingar breytingum á stjórnarskrá. Slík breyting gæfi Alþingi svigrúm til að fjalla á faglegan og ítarlegan hátt um breytingar á stjórnarskrá og leggja þær fyrir þjóðina að loknum kosningum.“

Þarna er Samband íslenskra sveitarfélaga, sem er þverskurður af sveitarstjórnarfólki um allt land úr öllum flokkum, og talar ekki fyrir neinn einn stjórnmálaflokk, að leggja til nákvæmlega sömu tillögu til sátta og við sjálfstæðismenn gerum hér. En það dugar ekki hér á hinu háa Alþingi og þessum tillögum okkar hefur verið mjög fálega tekið. Þær hafa varla fengist ræddar.

Ég leyfi mér að halda því fram að ekki hafi verið neinn vilji til sátta af hálfu núverandi stjórnvalda enda verður það nú að segjast eins og er að núverandi hæstv. forsætisráðherra, sem ætti að sjálfsögðu að gegna hlutverki sáttasemjara í þessu máli, er kannski ekki þekktust fyrir að beita sér fyrir málamiðlunum. Þvert á móti hefur viðkomandi haft það orð á sér í gegnum tíðina að vera afar föst fyrir og vera lítið fyrir málamiðlanir gefin. Það er kannski allt í lagi þegar viðkomandi er fagráðherra í ríkisstjórn og þarf að berjast hart fyrir sínum málum en það er verra þegar viðkomandi er kominn í hlutverk forsætisráðherra sem þarf og á að sætta mörg sjónarmið. Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að íhuga það.

Virðulegur forseti. Til stendur að keyra í gegnum Alþingi breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins á aðeins fáeinum dögum. Menn hafa farið mikinn í umræðunni og ásakað okkur sjálfstæðismenn um að standa eina í vegi fyrir breytingum og þetta snúist einungis um það að við getum ekki sætt okkur við það að vera ekki lengur á valdastóli. Þetta er að sjálfsögðu fráleitt og það sem ég las áðan upp úr umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sýnir að við eigum okkur skoðanabræður og -systur í þessu máli.

Hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir hélt þessu m.a. fram í makalausri ræðu í gærkvöldi, ræðu sem fjallaði reyndar meira um Sjálfstæðisflokkinn en nokkuð annað og mun meira um Sjálfstæðisflokkinn en stjórnarskrána. Þessi ræða verður, að mínu mati, hv. þingmanni ekki til framdráttar.

En það er rétt að við erum eini stjórnmálaflokkurinn hér á Alþingi sem gerir athugasemdir við framkomið frumvarp. Sjálfstæðisflokkurinn er andvígur því að ráðist verði í umfangsmiklar breytingar á stjórnarskránni án þess að tími gefist til vandaðrar málsmeðferðar. Þá gagnrýnum við sjálfstæðismenn harðlega að ekki hefur verið tekið tillit til sjónarmiða okkar við endurskoðun stjórnarskrárinnar heldur valinn farvegur ágreinings. Allt stefnir í að rofin verði 50 ára hefð um að leita samstöðu á Alþingi um breytingar á stjórnarskránni. Um þetta segir Ragnhildur Helgadóttir, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, í kafla sem ber fyrirsögnina „Hvaða breytingar er rétt að gera gegn vilja minni hluta?“, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrár eru ólíkar öðrum lögum að setningarhætti og vegna þess að þær eiga að leggja stórar línur og vera hafnar yfir pólitískar deilur á hverjum tíma. Vegna þessa eðlis stjórnarskráa breytast þær oft hægt, eru gjarnan gamlar í ríkjum með gamla lýðræðishefð og breytingar á þeim eru tiltölulega sjaldgæfar. Á grundvelli alls þessa er það skoðun mín að það væri afar óheppilegt ef nú yrði vikið frá þeirri hefð að breið samstaða allra flokka sé um breytingar á stjórnarskrá. Eins og menn vita hafa einungis tvisvar, frá fullveldi 1918, verið gerðar breytingar á stjórnarskrá í andstöðu við heilan stjórnmálaflokk og í bæði skiptin snerust breytingarnar um kjördæmaskipan og kosningar og vörðuðu beint hagsmuni viðkomandi flokks. Síðasta dæmi um þetta var 1959. Það er skoðun mín að með því að naumur meiri hluti á þingi samþykki stjórnarskrárbreytingar í andstöðu við stóran stjórnmálaflokk sé stjórnarskráin færð inn í hringiðu stjórnmálanna. Þess má þó vænta að næsti meiri hluti geri þær breytingar sem honum hugnast án þess að takmarka sig við það sem almenn sátt næst um á þingi og þannig koll af kolli. Þannig getur stjórnarskráin orðið óstöðugri og pólitískari en verið hefur, sem er óæskileg þróun.“

Þetta er að mínu mati alvarleg ádrepa til stjórnarflokkanna úr Háskólanum í Reykjavík. Það er nefnilega svo að þó við sjálfstæðismenn séum eini flokkurinn á Alþingi sem hefur þessa skoðun þá erum við svo sannarlega ekki ein á báti þegar leitað er umsagna út í samfélagið. Þvert á móti. Nánast allir þeir sérfræðingar og samtök sem leitað hefur verið umsagna hjá í meðförum málsins á Alþingi eru á einu máli um að málið sé ekki fullunnið og að tíminn sem gefinn hafi verið til umsagnar og umræðu sé of naumur.

Þá blasir við að ekki hefur farið fram málefnaleg og vönduð umræða um málið í þjóðfélaginu á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því að frumvarpið var lagt fram, að ekki sé minnst á efnislegar athugasemdir. Ég vil aftur minna hv. þingheim á það sem ég las hér upp áðan um stjórnarskrárbreytingarnar árið 1995 og það fyrirmyndarverklag sem þar var viðhaft.

Ég bendi í þessu samhengi á að þessu frumvarpi var vísað til sérnefndarinnar sem fjallaði um það 11. mars sl. Ekki var þó kosið í nefndina sjálfa fyrr en daginn eftir og fyrsti fundur nefndarinnar var föstudaginn 13. mars. Að kvöldi þess dags var málið sent til umsagnar og umsagnarfrestur var til 20. mars — einnar viku frestur til að skila áliti. Ein vika í þessu flókna og mikilvæga máli, hvílík vinnubrögð. Enda gera umsagnaraðilar ítrekað athugasemdir við þau. Ég ætla að lesa athugasemdir umsagnaraðila og drep hér niður í umsögn frá Rarik sem átelur vinnubrögðin, ekki bara út af tímasetningunni heldur líka vegna skorts á samráði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Jafnframt vill Rarik ohf. leggja sérstaka áherslu á gagnrýni á þau vinnubrögð sem í þetta skipti eru viðhöfð við breytingu á stjórnarskránni. Ekki eingöngu er tíminn sem Alþingi ætlar umsagnaraðilum allt of stuttur heldur er ekki leitað umsagna aðila eins og Rarik ohf. sem í 70 ár hefur starfað við nýtingu þeirra auðlinda sem verið er að fjalla um í frumvarpinu. Átelur Rarik ohf. þessi vinnubrögð.“

Fleiri gera athugasemdir við vinnubrögðin og í umsögn frá Landsvirkjun kemur fram, með leyfi forseta:

„Ekki verður því komist hjá því að benda á að sá tími sem veittur er af hálfu Alþingis til umfjöllunar og umsagnar um svo viðamikið mál er afar stuttur.“

Á öðrum stað segir Landsvirkjun:

„Landsvirkjun telur að nauðsynlegt sé að slík umræða og skoðanaskipti fari fram með faglegum og vönduðum hætti áður en ákvæði af þessum toga er tekið upp í íslensku stjórnarskrána. Það gerist ekki á nokkrum dögum. Þar til slík opin og hreinskiptin umræða hefur farið fram leggur Landsvirkjun því til að frestað verði að taka inn í íslensku stjórnarskrána efnisákvæði 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins.“

Ég held áfram að grípa niður í umsagnir umsagnaraðila. Hér er umsögn frá Samorku, með leyfi forseta:

„… þá hafi efnisatriði 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins engan veginn fengið þá almennu umfjöllun í samfélaginu sem eðlileg hlýtur að teljast þegar verið er að festa ákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins.“

Reykjavíkurakademían bendir á slíkt hið sama, með leyfi forseta:

„Tíminn er þó allt of naumur til að taka saman vandaðar efnislegar athugasemdir með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru hér innan húss.“

Landssambandi smábátaeigenda finnst mjög miður hversu knappan tíma það hefur til umsagnar um þetta mikilvæga mál.

Viðskiptaráð Íslands gerir athugasemdir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir það fyrsta gerir Viðskiptaráðið talsverðar athugasemdir við þá ætlan löggjafans að afgreiða þetta frumvarp með þeim hraða sem raun ber vitni. Frumvarpið felur í sér breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins og við slíkar breytingar ber að gæta vandaðra vinnubragða, sérstaklega hvað snertir samráð við atvinnulíf, fræðimenn og aðra hagsmunaaðila.“

Ég ætla að leyfa mér að halda áfram, virðulegi forseti, vegna þess að ég tel að þetta gefi mjög glögga mynd af því að við sjálfstæðismenn erum alls ekki ein á báti þegar horft er til samfélagsins um skoðun okkar á þessum breytingum. Landssamband íslenskra útvegsmanna segir í umsögn sinni:

„Breyting á stjórnarskránni krefst vandaðs undirbúnings og því teljum við rétt að lengri tími verði tekinn til að undirbúa þær en hér er gert ráð fyrir.“

Samtök um lýðræði og almannahag senda inn umsögn. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samtök um lýðræði og almannahag telja að mest allt frumvarpið sé ólýðræðislegt og þarfnist gagngerrar endurskoðunar við.“ — Það er nú ekkert flóknara.

Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við hug- og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Því miður gildir hið sama í báðum tilfellum að tími til umsagnar um svo viðamikið mál er of skammur til að forsvaranlegt sé að senda skriflega umsögn um málið.“

HS Orka segir, með leyfi forseta:

„HS Orka hf. vill þó nota tækifærið til að árétta sérstaklega að sá frestur sem gefinn er til svo veigamikilla breytinga er ekki boðlegur. Þá er skilgreiningu hugtaka mjög ábótavant og loks tekur HS Orka undir kröfu Samorku um að frestað verði að taka inn í stjórnarskrána efnisatriði 1. gr.“

Virðulegi forseti. Ég held að þessar umsagnir sýni það með óyggjandi hætti að þó ekki sé nema vegna vinnubragðanna er þetta mál fullkomlega vanbúið til umfjöllunar hér.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fjalla um 4. gr. frumvarpsins, um boðað stjórnlagaþing, gæluverkefni Framsóknarflokksins, skiptimyntina sem flokkurinn fékk fyrir það eitt að verja þessa verklausu minnihlutastjórn falli. Hugmyndin er sem sé sú að sett verði á laggirnar 41 manns stjórnlagaþing sem ætlað er að gera heildarendurskoðun á stjórnarskránni. En hverjir eiga að sitja þar? Maður skyldi ætla að þar yrðu lögspekingar og sérfræðingar á sviði stjórnarskipunar sem mundu vanda vel til þessa verks. Nei. Það er ekki endilega þannig en þeir eru nú ekki sérstaklega útilokaðir. Ýmsir aðrir eru útilokaðir og ýmis önnur skilyrði eru sett til setu á því stjórnlagaþingi sem við erum einmitt stödd á, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á. Alþingi hefur sem betur fer enn þá heimildina og valdið til að breyta stjórnarskránni.

En nei. Á stjórnlagaþingi mega alþingismenn t.d. ekki sitja heldur er hugmyndin sú að þetta eigi að vera aðilar ótengdir flokkunum og ótengdir pólitíkinni. Einmitt það. Það að menn hafi ekki setið á Alþingi gerir þá væntanlega sjálfkrafa ópólitíska. En er það alveg þannig? Eigum við ekki að gera ráð fyrir því að fólk geti verið pólitískt þó að það hafi ekki endilega setið á Alþingi? Það þarf reyndar ekki að horfa lengra en út á Austurvöll og hugsa til margra ræðumanna á búsáhaldafundunum til að sjá að þetta er hrein fjarstæða. Ég veit ekki betur en að meiri hluti þeirra ræðumanna sem haldið var fram að væru ópólitískir sé nú kominn á lista, annars vegar hjá Samfylkingunni og hins vegar hjá Vinstri grænum. Ópólitískari verða þeir nú ekki við það eitt að sitja ekki á Alþingi.

En gott og vel, gleymum því aðeins augnablik. Stjórnlagaþinginu er ætlað að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni og ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011. Maður skyldi þá ætla að óþarft væri að fara út í efnislegar breytingar á stjórnarskránni núna þar sem heildarendurskoðun er í burðarliðnum. Nei, það er nefnilega ekki alveg það sama. Það sem verið er að segja þarna, það sem verið er að segja okkur, er að okkur stjórnmálamönnum sé ekki treystandi til þess að breyta stjórnarskránni og að við þurfum að færa það vald til fólksins. Allt í lagi, það er sjónarmið. En bíðum samt aðeins við. Svona rétt áður en við ætlum að færa valdið til fólksins þá ætlum við stjórnmálamennirnir að þröngva í gegn, í fullkominni andstöðu við stærsta stjórnmálaflokkinn á Alþingi, breytingum á grundvallargreinum stjórnarskrárinnar, í fullkominni andstöðu við þriðjung þingheims. Þar sem okkur stjórnmálamönnunum er ekki treyst þá ætlum við fyrst að gera þessar breytingar. Ég átta mig ekki á því hver kemur upp með svona vitleysu.

Bráðabirgða áttatíu daga minnihlutastjórnin, sem samkvæmt eigin orðum ætlaði að slá skjaldborg um heimilin og fyrirtækin, má ekkert vera að því vegna þess að hún er of upptekin af því að passa upp á það að færa stjórnarskrárvaldið til fólksins. En áður en hún ætlar að færa það til fólksins ætlar hún að breyta grundvallargreinum stjórnarskrárinnar. Ja svei. Um þetta segir laganefnd Lögmannafélagsins, með leyfi forseta:

„Laganefnd telur ákveðna þversögn felast í því að gera efnisbreytingar á stjórnarskránni og á sama tíma koma á fót stjórnlagaþingi sem á að semja nýja stjórnarskrá. Er vandséð að framangreindar breytingar geti haft það mikið gildi á meðan stjórnlagaþing er að störfum en samkvæmt frumvarpinu á stjórnlagaþing að ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011. Ljóst er að sá tími er í sjálfu sér ekki mjög langur miðað við efni ákvæðanna sem um ræðir.“

Lögmannafélagið, sem ætti að hafa vit á þessum málum, er ekki alveg sammála minnihlutastjórninni í þessum efnum. Um þetta segir Ragnhildur Helgadóttir, títtnefndur háskólaprófessor, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að mörg ákvæði frumvarpsins feli í sér æskilegar breytingar legg ég til að ekki verði gerðar aðrar breytingar á stjórnarskránni nú en þær sem snúa að því hvernig henni skuli breytt, nema að sátt náist um það milli allra flokka. Ég fagna ákvæði um að héðan í frá þurfi þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni.

Hvað snertir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar þá kann hún að vera nauðsynleg til að fá fram umræðu um stjórnarskipunina en hún er að mínu mati ekki nauðsynleg vegna efnis stjórnarskrárinnar. Þær breytingar sem þarf að gera nú eru síst meiri en breytingar sem hafa hingað til verið gerðar á stjórnarskránni. Það er skoðun mín að vegna þess óróa sem ríkir í stjórnmálum og vegna þess að tilgangurinn er umræða en ekki aðkallandi breytingar sé ekki æskilegt að boða til stjórnlagaþings eftir næstu kosningar heldur eigi Alþingi að vinna að tillögum um aðkallandi breytingar á stjórnarskrá eftir næstu kosningar og leggja svo tillögur sínar undir þjóðaratkvæði í samræmi við tillögur frumvarpsins þar um. Ég bendi á nokkur umhugsunaratriði varðandi útfærslu á hugmyndinni um stjórnlagaþing en tek ekki afstöðu til hennar í smáatriðum.“

Það er því álit þeirra sem gerst þekkja til að þetta séu fullkomlega ólíðandi vinnubrögð. Ég tek undir það með hv. þm. Birni Bjarnasyni, sem talaði hér fyrr í dag, að þetta eru algerlega dæmalaus vinnubrögð sem við eigum ekki að þola. Við eigum ekki að sætta okkur við þetta. Íslensku þjóðinni á ekki að vera boðið upp á þessi vinnubrögð.

Hv. þm. Björn Bjarnason flutti hér afburðaræðu, eins og hans er von og vísa, og vitnaði m.a. í nýjar upplýsingar frá umboðsmanni Alþingis sem eru mjög mikilvægar í þessu sambandi. Ég vona svo sannarlega að þær verði teknar til greina.

Virðulegi forseti. Til að draga málið saman vil ég leyfa mér að lesa hér niðurlag nefndarálits frá minni hluta sérnefndar um stjórnarskrármál. Mér þykir sú samantekt draga það afar vel saman um hvað þetta fjallar. Ég vil fá að ljúka máli mínu með því að lesa þetta hér, með leyfi forseta:

„Sérnefnd um stjórnarskrármál hefur undanfarna daga haft til umfjöllunar frumvarp flutt af fulltrúum fjögurra þingflokka á Alþingi þar sem lagðar eru til þrjár breytingar á stjórnarskrá auk viðbótarákvæðis um stjórnlagaþing. Frumvarpið er flutt sem liður í pólitískum hrossakaupum við myndun núverandi ríkisstjórnar til að fá Framsóknarflokkinn til að verja ríkisstjórnina vantrausti. Í umræðum um málið og málsmeðferð nefndarinnar hefur orðið ljóst að:

a. málið er vanbúið enda gáfust sérfræðinganefnd einungis þrjár vikur til að vinna tillögur um málið og fjórar vikur hafa gefist til þinglegrar meðferðar,

b. ekki er fyrir hendi víðtæk samstaða um málið og afgreiðslu þess eins og jafnan hefur verið undanfarin 50 ár. Þvert á móti er málið flutt og afgreitt úr nefnd í miklu ósætti,

c. ekki er fyrir hendi samstaða meðal umsagnaraðila málsins um gildi þess,

d. fjölmörg sjónarmið og athugasemdir hafa komið fram frá sérfræðingum við frumvarpið sem þarfnast að mati minni hlutans frekari skoðunar,

e. fjölmargir umsagnaraðilar vekja athygli á óljósri hugtakanotkun og vafa við túlkun einstakra ákvæða, sem valdið geti réttaróvissu og málarekstri fyrir dómstólum,

f. ekki er nein samstaða innan nefndarinnar um greiningu á kostnaði við lagasetninguna.

Með hliðsjón af þessu viljaleysi meiri hlutans til að leita samkomulags við minni hlutann og því að skammur tími er nú til loka þings og mörg mikilvæg mál á dagskrá þess fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu telur minni hlutinn ekki raunhæft að ljúka með fullnægjandi hætti efnislegri umfjöllun og ná sameiginlegri niðurstöðu um ákvæði frumvarpsins að svo stöddu.“

Þetta er kjarni málsins, virðulegur forseti, og ég hvet þingheim og þá sem fara hér með völdin til þess að fara yfir þetta mál og hlýða á þær athugasemdir sem hér hafa verið bornar fram og taka tillit til þeirra eins og jafnan er gert þegar um breytingar á stjórnarskrá er að ræða. Það er fullkomlega óþolandi að vinnubrögðin séu þessi. Stjórnarskráin endurspeglar á hverjum tíma grundvallarreglur réttarríkisins. Þær reglur eru mjög mikilvægar þegar allt gengur vel, á tímum góðæris og hagsældar, en ef þær eru einhvern tímann mikilvægar þá er það á tímum eins og við lifum nú, umbrotatímum í samfélaginu. Þá þurfa reglur réttarríkisins að liggja fyrir og afar óheppilegt er að auka á óvissuna, að hreyfa við þessum grundvallarstoðum lagasetningar í landinu. Það gerir einmitt það. Það eykur lagaóvissuna í íslensku þjóðfélagi sem bætist þá við þá óvissu sem efnahagshrunið hefur valdið í íslensku samfélagi.

Virðulegi forseti. Það er hlutverk okkar í stjórnarandstöðunni að koma í veg fyrir að í tímaþröng verði ráðist í vanhugsaðar breytingar á stjórnarskránni. Ég ítreka hvatningu mína til stjórnarflokkanna og ekki síst til Framsóknarflokksins — ég veit að ef hann fær að heyra það nógu oft tekur hann rödd skynseminnar, tekur rökum (Gripið fram í.) og hlýðir (Gripið fram í: Hlýðir!) kalli þeirra sem krefjast þess að um þessi mál megi ríkja sátt. Ég treysti hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, sem nú er komin í salinn, til þess að nota nú þann kraft sem býr í formannsembætti hennar í þessari ágætu sérnefnd til þess að leggjast yfir þessi mál, hlýða á sjónarmið sem komið hafa fram og taka tillit til þess að stjórnarskráin er of mikilvægt plagg til þess að nota í einhverjum öðrum tilgangi en henni er ætlað.

Að svo mæltu lýk ég máli mínu, virðulegur forseti.