136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:47]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hef tekið eftir því að hvorki hæstv. forsætisráðherra né hæstv. fjármálaráðherra eru við þessa umræðu annan daginn í röð. (Gripið fram í.) Þau eru flutningsmenn þessa frumvarps. Ég hygg að það sé einsdæmi í vestrænum lýðræðisríkjum þar sem lögð eru fram frumvörp til breytinga á stjórnarskrám landa að flutningsmenn frumvarpsins séu ekki við umræðuna, láti ekki svo lítið að fylgja málum sínum úr hlaði, svara spurningum þeirra sem vilja beina þeim til þeirra þannig að ég óska eftir því, hæstv. forseti, að það verði kallað eftir hæstv. — (Gripið fram í.) Nei, nei, ég sakna þín ekkert, ég sakna hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra (Gripið fram í.) sem fyrstu flutningsmanna málsins og ég krefst þess að þessum fundi verði frestað þar til (Forseti hringir.) þau eru komin í hús svo við getum átt orðastað við þau.