136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér sýnist stefna aftur í það sama og var í fyrrinótt. Þá hélt ég síðustu ræðuna rétt fyrir klukkan tvö og ræddi um hugmyndir mínar um stjórnarskrá, fór í gegnum galla núverandi stjórnarskrár o.s.frv. Þá voru örfáir af þeim sem fluttu málið að hlusta og engir til svara af þeim sem ég vildi spyrja. Nú held ég, frú forseti, að ég þurfi að halda þessa ræðu aftur vegna þess að menn fylgjast ekki með. Svo leggja menn einhverja óskaplega áherslu á það að þeir séu á stjórnlagaþingi, það þurfi að setja stjórnlagaþing og búast við að þá gerist einhver kraftaverk. Menn þurfa þá að sækja þetta stjórnlagaþing betur, þeir sem eru staddir á því. (Gripið fram í: Akkúrat.) Það eru 63 þingmenn staddir á þessu stjórnlagaþingi, þeir eru að fjalla um breytingar á stjórnarskránni og þá finnst mér að þeir eigi að sýna þessu stjórnlagaþingi það mikla virðingu að þeir taki þátt í umræðunni. Ég legg til að þessari umræðu verði slitið þannig að menn þurfi ekki að endurtaka sig aftur og aftur fyrir nýju og nýju fólki.