136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:58]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Undanfarnar fjórar nætur höfum við verið hér á fundum langt fram eftir nóttu, iðulega þannig að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa varla getað verið viðstaddir og meira að segja var það þannig í fyrradag að einn stuðningsmaður minnihlutaríkisstjórnarinnar lagði sig í framkróka við það að skamma Sjálfstæðisflokkinn fyrir að vilja taka þátt í umræðum, svo mikið lá viðkomandi á að komast heim.

Þessi vinnubrögð af hálfu meiri hlutans eru gjörsamlega óviðunandi. Ef við getum ekki fengið þá sem bera ábyrgð á þessu frumvarpi til að koma hingað í hús er það skylda forseta að fresta fundi, klukkan 10 á föstudagskvöldi, fimmta kvöldið í röð. Ætlar forseti að bjóða okkur upp á það að ræða stjórnarskrána inn í nóttina? Hvenær ætlar forseti að slíta þessum fundi? Virðulegur forseti verður að gera grein fyrir því hvernig hann ætlar að haga þinghaldi hér í kvöld. Hann getur ekki boðið okkur upp á það að ræða mikilvæg mál dauðþreytt eftir miðnætti á föstudagskvöldi, vitandi það að á morgun er fundur klukkan hálftíu. Þá verður utandagskrárumræða og ýmis önnur mál og það er gjörsamlega óþolandi að forseti skuli ekki geta svarað.