136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er dálítil hætta á að maður endurtaki sig þegar ekki fást svör við þeim spurningum sem maður er að spyrja. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga þar sem eru fjórir flutningsmenn. Tveir þeirra eru í salnum en tveir ekki. Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem hefur lagt mjög mikla áherslu á mikilvægi stjórnlagaþings og mikilvægi þessara breytinga og einnig hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sem sömuleiðis hefur lagt mikla áherslu á þetta, a.m.k. flokkur hans, og hvorugt þeirra eru mætt.

Svo erum við að ræða nefndarálit eftir 1. umr. þar sem sérnefndin fjallaði um þetta. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, sem hefur reyndar verið mjög iðin við að hlusta á ræður, er stödd í salnum og einnig hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson. En hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, hv. þm. Ellert B. Schram og hv. þm. Atli Gíslason eru ekki til staðar. Hvernig eigum við að geta spurt þá? Í nótt ætlaði ég að spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson en hann var ekki til staðar.