136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:06]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það hefur vakið athygli mína í umræðunni hversu ótrúlegur hroki hefur verið sýndur af hálfu ráðherra sem eru flutningsmenn þessa frumvarps. Þeir sýna ekki einungis okkur þingmönnum þennan hroka heldur forseta Alþingis sem er að reyna að ná fram málum og stjórna þinginu þannig að einhver árangur verði en þá neita þessir ráðherrar að koma og taka þátt í þeirri umræðu sem þeir hafa stofnað til. Það á ekki að sætta sig við þetta. Ég ætlast til að þeir komi og séu við umræðuna um stjórnlagafrumvarpið en ekki síður til að hlusta á það sem við leggjum áherslu á — og nú kemur forsætisráðherra í salinn og ber þar vel í veiði — að hér eru á dagskrá mál sem við sjálfstæðismenn teljum að eigi að ganga á undan og vera afgreidd á undan stjórnlagafrumvarpinu. Þess vegna eiga þessir (Forseti hringir.) ágætu ráðherrar að koma hingað og hlýða á málflutning okkar. (Gripið fram í: Þá er fyrsti flutningsmaður mættur.) (Gripið fram í: Það er ljómandi gott...) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Þá skulum við fara í umræðuna.)