136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:12]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem hafa talað og lagt áherslu á að við fáum upplýsingar um hvað þessi þingfundur á að standa lengi. Það er grundvallaratriði eins og kom fram í umræðunni í gær að fólk hefði upplýsingar um það svo það gæti áttað sig á hvernig það áætlar tíma sinn. Virðulegi forseti talaði um að meiningin hefði verið að haldnar yrðu sex ræður. Í þessum umræðum um fundarstjórn forseta hafa verið haldnar þó nokkuð fleiri ræður en það, en ég reikna með að forseti hafi átt við þær ræður sem yrðu haldnar um það dagskrárefni sem um er að ræða. Ég hef hlustað á nokkrar ræður haldnar í dag og ég velti fyrir mér hvort forseti hafi átt við að það yrðu sex ræður alls miðað við daginn. Þá eru ekki margar eftir en ég hygg að eðlilegt sé og það sé virðing við þjóðina, þingið og stjórnarskrána að við höldum ekki lengur áfram en til miðnættis (Forseti hringir.) þar sem fundur er áætlaður og á dagskrá í fyrramálið.