136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[22:16]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef verið að reyna að átta mig á þessum svörum hæstv. forseta. Hann hefur talið ræður sem eiga að fara fram í kvöld og það er spurning hvað hann telur ræður í því samhengi. Af því að hann kemur með tilboð af forsetastóli um ræðufjölda skal ég gera hæstv. forseta annað tilboð, það er að taka þetta mál út af dagskrá og fara að ræða þau mál sem skipta máli. Ég nefni enn og aftur 7. málið á dagskrá sem er heimild til samninga um álver í Helguvík. Ég held að það sé mjög gott tilboð til hæstv. forseta og hann ætti að íhuga mjög vel að taka því þannig að hægt sé að fara að ræða það mál og ljúka því þannig að hægt verði að horfa á atvinnumál í þessu landi. Það er viðkvæmt mál. Það hefur alltaf legið fyrir að það þyrfti að ræða breytingar á stjórnarskránni mjög vandlega. Það hefur forseti vitað. Hann hefur vitað að þetta mundi taka langan tíma og þess vegna er mjög undarlegt að forseti skuli leyfa sér að raða dagskránni upp með þeim hætti að þau mál sem skipta máli fyrir heimilin og atvinnulífið í þessu landi (Forseti hringir.) komist ekki á dagskrá.