136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á sumu því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns. Mér finnst að hún hafi sett fram órökstuddar fullyrðingar og á köflum var hv. þingmaður með málflutning sem ekki er hægt að flokka undir annað en dylgjur og ósannindi. Hvernig getur hv. þingmaður rökstutt það að sú sem hér stendur og við sem flytjum þetta frumvarp séum að ráðast að stjórnarskránni, ráðast á Alþingi til að geta setið við völd? Hvað meinar hv. þingmaður? Hvað meinar hv. þingmaður með því að segja að Samfylkingin tali ekki við neinn nema hann sé sammála forustunni? Þetta er alrangt hjá hv. þingmanni og ég bið hana að rökstyðja það sem hún segir um að við séum að fórna stjórnarskránni á altari pólitískra hagsmuna. Hvað meinar hv. þingmaður með því þegar hún segir að hér sé verið að breyta um vinnubrögð og traðka á lýðræðinu? Við erum að auka lýðræðið, auka þátttökurétt fólksins. Við erum að koma á lýðræðisumbótum. Ég minni á það sem stendur í áliti meiri hlutans þar sem segir orðrétt:

„Meiri hlutinn bendir í þessu sambandi á að vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur staðið nánast óslitið yfir frá lýðveldisstofnun árið 1944 með takmörkuðum árangri.“

Það er kannski ástæða þess að við flytjum þetta mál að það gengur hvorki né rekur að ná fram breytingum á stjórnarskránni.

Síðan kórónar hv. þingmaður þetta með einhverjum dylgjum um að sú sem hér stendur hafi ekki staðið sig og komið sér hjá og hlaupist frá niðurskurði sem félagsmálaráðherra í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég mótmæli þessu. Sú sem hér stendur stóð að niðurskurði með alveg sama hætti og aðrir og sparaði ekki síður en hæstv. fyrrverandi menntamálaráðherra þannig að það sem hv. þingmaður setur hér fram á margan hátt er dylgjur og órökstuddar fullyrðingar.

Síðan segir hv. þingmaður að stjórnlagaþing hafi ekki verið rætt hér áður. Sú sem hér stendur flutti frumvarp um breytingu á stjórnarskránni um að efnt skyldi til stjórnlagaþings og hvernig að því skyldi staðið. Síðan í lokin vil ég segja að meiri hlutinn vann vinnu sína vel. Ég þakka meiri hlutanum fyrir þá vinnu sem var unnin í nefndinni vegna þess að hún var fín. Það var tekið á margan hátt tillit til þess sem fram hefur komið í málflutningi sjálfstæðismanna, í þremur atriðum (Forseti hringir.) af þeim fjórum sem voru sett fram er um að ræða breytingar. (Gripið fram í.)