136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vona að frú forseti hlusti á það sem ég er að segja vegna þess að ég spurði áðan spurningar. Ef svo skyldi vilja til að forseti færi að óskum þingmanna Sjálfstæðisflokksins, frestaði umræðu um þetta mál og tæki önnur mál fyrir, t.d. mál sem varða atvinnu þjóðarinnar, von til hennar, mál um að gefa þjóðinni von með álverið í Helguvík, er ég í þeirri stöðu að t.d. mál nr. 3 á dagskrá, um tekjuskatt, varðar vaxtabætur. Því var gjörbreytt í nefndinni og ég fullyrði að það er nýtt mál. Ég lét bóka í nefndinni að ég hefði athugasemdir við það að málinu hefði verið gjörbreytt. Ég þarf að vera með fyrirvara um þetta, frú forseti.

Síðan er málið um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja. Þar á ég eftir að skrifa nefndarálit og þarf að biðja um frestun. Þá er það um fjármálafyrirtæki, um slit bankanna. Það liggur ekki lítið á að koma því í gegn. Svo eru breytingar á ýmsum lögum sem varða fjármálamarkaðinn. Það fjallar um litla manninn sem getur fengið uppgjöf saka ef hann segir frá því sem hann verður vitni að.