136. löggjafarþing — 125. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:00]
Horfa

Jón Magnússon (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Rétt í þann mund sem ég stíg í þennan ræðustól á virðulegustu stofnun landsins, Alþingi, er klukkan að slá tólf á miðnætti. Það er kominn laugardagur og þingfundur er boðaður í fyrramálið klukkan hálfellefu þannig að nú er mál að linni og við tölum og sýnum þjóðinni og stjórnarskránni þá virðingu að halda áfram þessari umræðu um stjórnarskrána í fyrramálið í björtu þannig að þjóðin geti fylgst með og hlustað á hvað við höfum fram að færa.

Ég er mjög ánægður með það að hæstv. forsætisráðherra skuli sýna þinginu þá virðingu að koma hér og vera viðstödd umræðuna og vænti þess að hún muni halda því áfram og vera viðstödd umræðuna á morgun.

En ég ítreka, virðulegi forseti, að þar sem kominn er laugardagur finnst mér miklu skipta að við sýnum þjóðinni, þinginu og stjórnarskránni þá virðingu að slíta hér fundi þar sem fundur er boðaður (Forseti hringir.) strax í fyrramálið.