136. löggjafarþing — 125. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Erindi mitt í þennan ræðustól er að vekja athygli hv. þm. Herdísar Þórðardóttur á breytingartillögu frá meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál sem er á þskj. 385 og varðar stjórnlagaþing. Þar kemur fram að gert er ráð fyrir því að til stjórnlagaþings verði kosið samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2010, að þingið komi saman 17. júní 2010 og starfi í eitt ár, ljúki störfum fyrir 17. júní 2011, sem sagt á sama tíma og upphaflega frumvarpið gerði ráð fyrir, hins vegar byrji það síðar. Það er að sjálfsögðu gert í þeim tilgangi að spara fé, bæði með styttri starfstíma stjórnlagaþings auk þess sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál að meiri hlutinn telur ekki sýnt að fulltrúar þingsins þurfi að vera í fullu starfi á stjórnlagaþingi. Það mun einnig spara töluvert fé (Gripið fram í.) að láta kosningarnar fara fram samhliða sveitarstjórnarkosningum. Eins og fram hefur komið fyrr í kvöld gerðu fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem komu fyrir sérnefndina, ekki athugasemdir við það fyrirkomulag. (Gripið fram í: Er það nýjasta tillagan?)

Er það nýjasta tillagan? kallar hv. þingmaður, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hér fram í. Þetta er samhljóða nefndarálit meiri hluta sérnefndar um stjórnarskrármál sem leggur þetta til, m.a. til þess að koma til móts við þau sjónarmið sem sjálfstæðismenn og reyndar fleiri hafa haldið fram, þ.e. gagnrýni á upphaflega frumvarpið, að það hafi verið of kostnaðarsamt hvað varðaði stjórnarskrármálið. Það hefur verið komið til móts við Sjálfstæðisflokkinn í því, herra forseti.