136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd -- frumvarp um stjórnarskipunarlög -- röð mála á dagskrá.

[10:38]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins um það sem hér hefur komið fram. Staðan er sú að 25 þingmenn eru á mælendaskrá og ég held að þar af séu 24 sjálfstæðismenn. Um leið og þeir hafa lokið máli sínu getum við tekist á við önnur mál sem eru á dagskránni. Varðandi það sem hér kom fram í upphafi, ég held að hv. þm. Sturla Böðvarsson hafi kallað eftir því að við kæmum og svöruðum því sem fram hefur komið í þessari löngu umræðu. Ég hef lengstum verið hér og hef reynt að svara því sem upp hefur komið. En við erum ákveðin í því að á miðvikudaginn, sem er mjög líklegt að verði lokadagur og þá muni hv. þingmenn, sjálfstæðismenn, ljúka máli sínu, munum við koma inn í umræðuna og reyna að svara því sem fram hefur komið. Þar sem við komumst ekki að fyrr en á miðvikudaginn er mjög erfitt fyrir okkur að svara því sem hér hefur komið fram í ítarlegu og vönduðu máli.