136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd -- frumvarp um stjórnarskipunarlög -- röð mála á dagskrá.

[10:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hélt að klukkan hálfellefu ætti að hefjast hér utandagskrárumræða um ríkisfjármál að beiðni Sjálfstæðisflokksins og ég hafði fallist á að taka þessa umræðu klukkan hálfellefu.

Eitthvað tefst það nú vegna þess að sjálfstæðismenn koma hér í fundarþvarg og tefja fyrir umræðu sem þeir hafa sjálfir beðið um að fá hér á dagskrá á tilteknum tíma. (ArnbS: Það er verið að brjóta hér þingsköp.) Frú forseti. Ef ég mætti bara klára. Ég tek flug austur á land í hádeginu þannig að það er sjálfstæðismönnum algerlega í sjálfsvald sett hvort þeir tefja fyrir eða eyðileggja sína umræðu. (ArnbS: … vera viðstaddur umræðuna hér?)

Ef hv. þingmaður getur haft þögn augnablik. Ég hef fallist á að taka þessa umræðu hér. Það var lögð áhersla á hana af hálfu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og hún átti að hefjast klukkan hálfellefu. Ég er bara að vekja athygli á því að sjálfstæðismenn eru hér með fundarþvarg og tefja fyrir málum sem að þeirra ósk hafa verið sett á dagskrá þingsins á tilteknum tíma. Það er alveg í anda (Gripið fram í.) við framgang þeirra í stjórnarskrármálinu og annars sem hér birtist okkur af þeirra kúnstuga málflutningi þessa dagana.