136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd -- frumvarp um stjórnarskipunarlög -- röð mála á dagskrá.

[10:42]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér steig úr ræðustóli meistari hins kúnstuga málflutnings, Steingrímur J. Sigfússon, sem á auk þess á heimsmet á Íslandi í lengd ræðutíma á Alþingi. Það er ekki úr háum söðli að detta á þeim bænum.

En ég vildi, hæstv. forseti, vekja athygli á því að hér kvartaði formaður þingflokks Samfylkingarinnar um það að komast ekki að. Það er lögvarinn réttur ráðherra að geta komið í umræðu hvenær sem er þannig að hæstv. fjármálaráðherra gæti komið hér og svarað. Hæstv. forsætisráðherra, 1. flutningsmaður frumvarpsins, gæti komið hér hvenær sem er og svarað. Það er alger útúrsnúningur og ómerkilegur málflutningur af hálfu Lúðvíks Bergvinssonar að halda því fram að stjórnarandstaðan komist ekki að. Ráðherrarnir geta komist að hvenær sem er. (Gripið fram í: Á miðvikudaginn.)

Hann segir að það sé kallað eftir svörum þeirra og þeir komist ekki að. Þetta er ótrúlegur málflutningur og algerlega í samræmi við það, hæstv. forseti, sem hér hefur tíðkast og ég hvet hæstv. forseta til að fresta þessari umræðu (Forseti hringir.) þannig að forsætisráðherra geti komið og geti kynnt sér (Forseti hringir.) þetta mál betur og tillögur okkar sjálfstæðismanna.