136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd -- frumvarp um stjórnarskipunarlög -- röð mála á dagskrá.

[10:43]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég geri það að tillögu minni að við reynum að koma sæmilegu skikki á þessa hluti hér. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, kom hér upp áðan og nefndi það að þingmenn þeirra gætu illa komist að umræðunni fyrr en á miðvikudaginn. Ég tel þá einsýnt að þingflokksformaður Samfylkingarinnar og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og aðrir þingflokksformenn setjist niður og skipuleggi þessa umræðu. Það er verulega sársaukalaust af okkar hálfu að hleypa þingmönnum Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, minnihlutastjórnarinnar, að inn í umræðuna þannig að umræðan geti haft hér eðlilegt yfirbragð.

Í öðru lagi legg ég til að sömu þingflokksformenn setjist aðeins yfir dagskrá þingsins. Tökum nú þau mál sem skipta máli og er heilmikil sátt um í þinginu og skipta máli fyrir atvinnulífið, göngum frá þeim og höldum svo áfram umræðu um stjórnarskrána. Við höfum nægan tíma til að gera það og eigum að gera það þannig að góður bragur sé að því fyrir Alþingi Íslendinga.