136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

fundur í umhverfisnefnd – frumvarp um stjórnarskipunarlög – röð mála á dagskrá.

[10:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er undarlegt að heyra þau sjónarmið sem hér var lýst af hálfu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Það sem við erum að ræða hér er auðvitað tilhögun starfa þingsins, stjórn forseta á störfum okkar. Það er eðlilegt að við höfum við það að athuga þegar fyrir liggja á dagskrá dagsins í dag mikilvæg mál sem þarf að ræða, (Gripið fram í.) mál sem þurfa að ganga fram. Hér er einungis um það að ræða að samkomulag náist á milli flokkanna, að menn séu tilbúnir til þess að ræða saman í þágu þjóðarinnar, virðulegi forseti. (Forseti hringir.)

Hér stendur virðulegur þingflokksformaður Samfylkingarinnar sem áðan kvartaði yfir frammíköllum og gjammi. Vill hann nú ekki setjast niður með formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins og semja um þessi mál þannig að það sé hægt að klára þau mál sem skipta máli fyrir þjóðina hér núna strax, halda síðan áfram með þessi mál? Það er fullur vilji af hálfu þingflokks Sjálfstæðisflokksins til að semja um þessa hluti. Ef enginn samningsvilji er þá komast málin auðvitað illa á dagskrá. Við lýsum því yfir enn og aftur (Forseti hringir.) að við erum tilbúin að semja um öll þessi mál til að tryggja framgang þeirra mála sem snúa að heimilunum í landinu og atvinnulífinu.