136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[11:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er sjálfsagt mál að ræða þetta við sjálfstæðismenn eins og gert var m.a. á löngum fundi í fjárlaganefnd í vikunni. Ég held að flestum hafi fundist sá fundur góður nema þá sjálfstæðismönnum í lok fundarins. Þeir voru eitthvað ósáttir við það að tilgangur þeirra með fundinum og það sem þeir ætluðu sér hafi ekki alveg gengið upp. Það hafa verið veittar mun meiri upplýsingar um stöðu þjóðarbúsins núna og um undirbúning að aðhalds- og sparnaðaraðgerðum og um undirbúning að fjárlögum ársins 2010 en venjan er á sama árstíma yfirleitt.

Við getum spurt okkur að því: Hvaða upplýsingar höfðu stjórnarandstæðingar í höndum í aprílbyrjun í fyrra um vinnu þáverandi ríkisstjórnar að fjárlögum fyrir næsta ár? Engar. Og stjórnarþingmenn höfðu engar upplýsingar í höndunum. Ég held að þeir ættu aðeins að setja hlutina í samhengi. Vissulega eru síðan sérstakir tímar og þeir geta kallað á önnur vinnubrögð og það hafa þeir gert.

Ýmis undirbúningur er miklu lengra kominn hvað varðar skipulag og það hvernig menn ætla að takast á við þetta stóra verkefni og frá þeim undirbúningi hefur verið greint. Til dæmis því sem ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið, að skipa þrjá vinnuhópa sem fari í þrjú mikilvægustu svið ríkisfjármálanna og ríkisbúskaparins, ef svo má að orði komast. Það eru tekju- og gjaldamálin almennt, það eru tilfærslurnar og það er í þriðja lagi skipulag ráðuneyta og stofnana. Þessir starfshópar munu hefja störf á næstu dögum undir stjórn ríkisfjármálanefndar ríkisstjórnarinnar.

Varðandi upplýsingar að öðru leyti bendi ég hv. þingmanni á þau gögn sem eru aðgengileg á island.is og voru kynnt fyrir þremur vikum síðan. Ef hv. þingmaður hefur haft fyrir að kynna sér þetta sér hann mjög mikið af því sem hann er að spyrja um í þeim ítarlegu ríkisfjármála- og þjóðhagsupplýsingum sem þar eru lagðar fram. Til dæmis er á blaðsíðu 9 í þessu hefti upplýst um áætlaðan tekjujöfnuð ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á árunum 2008 til og með 2013 og þeir sem eru læsir á gögn og línurit sjá hér þá áætlun til meðallánstíma (Gripið fram í.) sem er hluti af gögnunum sem eru í vinnslu með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Hvernig er framvinda ríkisrekstrarins árið 2009 miðað við fjárlög ársins? Það er sömuleiðis ákaflega ljúft að upplýsa það. Það má benda á þetta ágæta rit sem kemur út mánaðarlega. Þar eru þessi gögn aðgengileg hverjum þeim sem vill kynna sér þau. Það liggur fyrir og er hér sagt að innheimtar tekjur ríkissjóðs í heild voru 90,6 milljarðar fyrstu tvo mánuði ársins og það 5,1 milljarði undir áætlun fjárlaga. Gjöldin eru sem betur fer líka lægri svo nemur 1,8 milljörðum kr. og þar hafa menn stöðuna, nýjustu upplýsingar sem til eru um þróun ríkisbúskaparins það sem af er árinu og hún er svona. Það er alveg rétt, tekjur hafa dregist meira saman en menn ætluðu. Samdrátturinn í þjóðarbúskapnum kemur af fullum þunga inn í ríkissjóð og veldur þessu. Þar með er fyrstu spurningunni svarað.

Hvernig hyggst ríkisstjórnin mæta frávikum sem leiða af meiri samdrætti í tekjum en ráð var fyrir gert og vegna útgjalda umfram fjárlög? Það verður gert m.a. með því að auka eftirlit og aðhald með því að forsendur fjárlaga yfirstandandi árs haldist eins og nokkur kostur er. Sérstakar aðgerðir eru í gangi í þeim efnum. Fundir hafa verið með ráðuneytum og send bréf í öll ráðuneyti og þau hafa sent skýrslur til baka til fjármálaráðuneytisins. Það er verið að reyna eins og kostur er að tryggja að menn nái þeim sparnaði og því aðhaldi sem ætlunin er samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs. Hinu ráðum við auðvitað ekki ef tekjurnar streyma hægar inn en ráð var fyrir gert. Og það er vissulega líka þannig að ríkissjóður hefur teygt sig nokkuð langt í samskiptum við ýmsa aðila til að milda áhrif efnahagsáfallanna á þá. Til dæmis er búið að afgreiða lög um gjalddagaaðlögun fyrir atvinnulífið sem er ívilnandi fyrir það, sem leyfir því að dreifa greiðslum á lengri tímabil í tengslum við uppgjör án vaxtareiknings. Það má öllum vera ljóst að það hefur viss áhrif á tekjustreymi inn í ríkissjóð, hægir pínulítið á því að hluta til. En eru menn ekki sammála því að þrátt fyrir erfiðar aðstæður sé mikilvægt að ríkið leggi sitt af mörkum?

Varðandi spurningar þrjú og fjögur. Þau mál standa nákvæmlega þannig að gögnin sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er nú með í sínum höndum eru vinnuskjöl. Viðauki við samstarfsyfirlýsinguna frá því í haust er óundirritaður. Þessi gögn eru nákvæmlega í því ferli. Meðferð upplýsinganna fer síðan samkvæmt reglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þau eru birt eftir fyrirtekt stjórnar og viku til tíu dögum síðar birtast undirgögn, starfsmannaskýrslur og annað í þeim dúr. Með nákvæmlega sama hætti og þetta var gert í haust.

Ég hef hins vegar upplýst margar mikilvægustu og viðkvæmustu stærðirnar í þessu dæmi. Ég taldi rétt að upplýsa að áætlunin um hvað mikið þurfi að brúa bilið milli tekna og gjalda á næsta ári er af stærðargráðunni 35–55 milljarðar kr. Það er stærsta einstaka talan í þessu. Það má segja að það séu viðkvæmustu og erfiðustu upplýsingarnar og þær hafa verið birtar.

Í fimmta lagi er spurt hvernig eigi að takast á við þetta. Þar hefur sömuleiðis verið sagt: Það verður blönduð leið. Það verður reynt að afla tekna eftir því sem það er þjóðhagslega skynsamlegt og mögulegt með sanngjörnum og réttlátum hætti. En það verður líka skorið niður og beitt aðhaldi.

Að spyrja um nákvæmlega hvernig þetta verði er að spyrja um hvernig fjárlög ársins 2010 líti út. Hvernig geta þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætlast til þess að ákvarðanir sem ekki á að taka hvort eð er um tæknilegar útfærslur fyrr en í maí og júní samkvæmt tímaáætlum samstarfsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn liggi fyrir nú eða að endanleg útfærsla í fjárlögum ársins 2010 liggi fyrir núna í byrjum aprílmánaðar? Það gefur augaleið að svoleiðis er það ekki nema að sjálfstæðismenn vilji að þessi ríkisstjórn gangi frá þessu öllu rétt fyrir kosningar sem er náttúrlega dálítið skrýtin nálgun.

Að lokum vil ég segja að það stóð aldrei til að annar áfangi og fleiri áfangar gjaldeyrislánanna (Forseti hringir.) frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kæmu strax í febrúar. Fyrri ríkisstjórn var búin að seinka því ferli um meira en mánuð svo það var augljóst mál að það gat aldrei orðið fyrr (Forseti hringir.) en í lok mars eða apríl sem þau lán hefðu komið. Nú er áætlað að það geti gerst nokkrum vikum seinna.