136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[11:24]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ríkisfjármálin verða augljóslega eitt helsta umræðuefni þessarar kosningabaráttu enda brennur þar eldurinn heitastur. Það liggur fyrir að þeir stjórnmálaflokkar sem mynda núverandi minnihlutastjórn í þinginu hafa lýst því yfir ítrekað að þeir hyggist starfa saman að kosningum loknum fái þeir til þess kjörfylgi. Þess vegna er það alveg eðlileg krafa af hálfu okkar sjálfstæðismanna að það komi mjög skýrt fram einmitt fyrir kosningar hvað það er nákvæmlega sem þessir flokkar ætla sér fyrir í ríkisfjármálunum. Það skiptir máli vegna þess að þjóðin á auðvitað rétt á því að sjá nákvæmlega framan í þau áform sem munu þá ganga fram fái þessir flokkar nægilegt fylgi í kosningunum.

Það hefur komið hér fram í umræðunni og hefur komið fram áður að brúa þurfi bil upp á 33–55 milljarða kr. Það hefur jafnframt komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að tillaga hans og hans flokks sé sú að fara svokallaða blandaða leið, þ.e. skattahækkanir og niðurskurður. Hér skiptir alveg gríðarlega miklu máli fyrir íslenskt þjóðarbú og fyrir íslenska þjóð hvaða hlutföll menn eru hér að tala um, hversu miklu á að ná inn með hækkuðum sköttum, hversu miklu á að ná inn með niðurskurði. Það er lágmarkskrafa að það komi fram frá stjórnarflokkunum hvað það er mikið sem menn ætla sér að taka niður með niðurskurði og hvar menn horfa helst til þess niðurskurðar. Enginn fer fram á það að komið sé fram með einhver smáatriði í því, það liggi bara fyrir meginlínur og það er eðlileg krafa. Jafnframt er eðlilegt að það komi fram með óyggjandi hætti hversu miklar skattahækkanir um er að ræða og hvar þær eiga að koma niður.

Það skiptir líka máli, eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi alveg réttilega í sinni góðu ræðu, hver verðmætasköpunin er í landinu þegar menn horfa á tekjur ríkissjóðs. Þess vegna er það lykilatriði hvar menn ætla að hækka skattana og hversu mikið vegna þess að það hefur áhrif á hagsveifluna í landinu og þar með hefur það áhrif á tekjur ríkissjóðs. Of miklar skattahækkanir draga úr driftinni í atvinnulífinu og um leið draga þær úr tekjum ríkissjóðs.

Því miður — og það var það sem gerði okkur sjálfstæðismenn óánægða með þann opna fund sem við áttum með hæstv. fjármálaráðherra — komu ekki fram svör akkúrat við því sem við spurðum, hversu miklum tekjuauka hagvöxturinn sem hæstv. fjármálaráðherrann spáði sjálfur að yrði á árinu 2011 ætti að skila.

Síðan hitt: Núverandi ríkisstjórn kom til valda og hefur nú setið, ef ég man rétt, frá 1. febrúar. Það sem er alveg furðulegt að heyra er að að þessum tíma liðnum séu loksins komnir af stað vinnuhópar til að vinna í ríkisfjármálunum. Hvers vegna í ósköpunum setti ríkisstjórnin ekki af stað þessa vinnu strax og hún kom til valda, hvernig stendur eiginlega á því? Það er alveg furðuleg þversögn fólgin í því að menn annars vegar segi að þeir ætli að fara í (Forseti hringir.) þessa vinnu með þessum hætti en hins vegar telji þeir sig ekki hafa umboð, eins og kom fram hjá hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, hvorki til að ræða það né til að taka nokkrar þær ákvarðanir sem skipta máli þegar kemur að ríkisfjármálunum. (Forseti hringir.) Þetta er alveg furðuleg þversögn.