136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[11:27]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það hefur sjaldan verið erfiðara að koma saman fjárlögum fyrir næsta ár en við þær aðstæður sem við búum við núna og það hefur sjaldan verið erfiðara og mikilvægara að halda sig innan ramma fjárlaga á þessu ári en einmitt núna þegar tekjugatið er 150 milljarðar kr. og þar af 80 milljarðar sem við þurfum að greiða í vexti.

Þetta er auðvitað staða sem er, eins og hér hefur verið rætt um, í boði Sjálfstæðisflokksins og einskis annars. Þess vegna er undarlegt að heyra talað hér eins og að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi komið að stöðu sem hafi verið í hinu besta lagi.

Ég ætla að víkja aðeins að niðurskurði fjárlaga upp á ríflega 6 milljarða kr. í heilbrigðisþjónustunni sem var nokkuð til umræðu á fundi hv. heilbrigðisnefndar í gær. Þar kom m.a. fram hjá hæstv. ráðherra Ögmundi Jónassyni að samlegðaráhrifin af hinni stórkarlalegu sameiningu í heilbrigðisþjónustunni, sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson boðaði í því sama embætti 6. janúar sl., reyndust vera óskhyggjan ein, óskhyggja aðkeyptra sérfræðinga ráðherrans þáverandi í einkavæðingaráformunum.

Það var líka upplýst á fundinum að ekki hefur verið fallið frá þessum sameiningarhugmyndum. Hins vegar hefur verið ákveðið að vinna þær með heimamönnum og samkvæmt tillögum þeirra. Það er þannig sem árangur getur náðst, ekki öðruvísi, ekki með valdboði að ofan og hvað þá að kynna einhver samlegðaráhrif sem séu byggð á óskhyggjunni einni. Það koma líka fram að vinnuhópar vegna fjárlaga þessa árs hafa skilað af sér og telja að unnt verði að halda heilbrigðisstofnunum í landinu innan fjárlagarammans á þessu ári. Það verður erfitt en þeir telja að það sé hægt.

Það var athyglisvert að á þessum fundi var dreift yfirlitsblaði yfir áætlaða rekstrarafkomu heilbrigðisstofnana 2008, og hvað kemur þar fram, frú forseti? Þar kemur fram m.a. að áður en fjáraukinn kom til vantaði 4 milljarða upp á afkomu heilbrigðisstofnananna. Hvenær var þetta? Það var eftir góðærið. Þetta var viðskilnaður hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, enda eins og allir vita liggur fólk enn á göngum Landspítalans þó að hæstv. fyrrverandi ráðherra telji svo ekki vera.

Frú forseti. 25. apríl nk. velur þjóðin hvort (Forseti hringir.) hún felur Vinstri grænum og hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra, (Forseti hringir.) Ögmundi Jónassyni, að sigla heilbrigðiskerfinu í gegnum þessa erfiðleika eða einkavæðingarpostulanum og flokki hans, (Forseti hringir.) Guðlaugi Þór Þórðarsyni.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða tímamörk.)