136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[11:38]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ekki er óeðlilegt að kjósendur fái að vita hvað stjórnmálaflokkarnir ætla að gera við þær aðstæður sem við búum við núna. Það er bara sjálfsagður hlutur að flokkarnir segi hverju þeir vilji breyta og hvað þeir ætli að gera. Það hlýtur að vera eðlileg krafa. Við í Frjálslynda flokknum viljum nýta allar auðlindir okkar, bæði til sjávar og sveita, til að minnka atvinnuleysið og skapa meiri gjaldeyristekjur. Það er í stórum dráttum stóra lausnin fyrir okkur, það að reyna að auka tekjur til sjávar og sveita við þessar aðstæður og minnka atvinnuleysi. Að sama skapi viljum við verja velferðarkerfið og viljum ekki að notaður verði flatur niðurskurður í þjóðfélaginu. Við viljum ekki að jafnmikið verði skorið niður á spítölum eða elliheimilum og í utanríkisþjónustu. Við viljum að þar verði gerður greinarmunur á.

Það þarf að forgangsraða verkefnum með þeim hætti að velferðarkerfið haldi sér en þar sem við erum að bruðla í alvörunni verði skorið niður. Við viljum ekki að 15–20 milljörðum sé eytt í tónlistarhús á meðan peninga vantar í ýmiss konar aðra atvinnustarfsemi eða heilbrigðisþjónustu. Við ætlum að skera niður í heilbrigðisþjónustunni á sama tíma og við setjum 15–20 milljarða í þetta monthús, tónlistarhúsið. Það er nefnilega ekki sama hvernig við höldum á og það er öruggt að við þurfum víða að fara í mikinn niðurskurð. Við þurfum sjálfsagt að hækka skatta og þá er ekki sama hvort við hækkum skatta á hálaunafólk eða láglaunafólk eða hvort við skerðum bætur öryrkja og ellilífeyrisþega. Við þurfum að gæta okkur á því hvernig við ætlum að taka á þessum hlutum. Það er auðvitað víða hægt að gera miklar breytingar án þess að koma mjög illa við fólk. Í stórum dráttum eru tillögur okkar í Frjálslynda flokknum að standa á bak við velferðarkerfið og hjálpa þeim sem verst standa í þjóðfélaginu og við höfum lagt hér fram tillögur, frumvörp og þingsályktunartillögur, um þau mál. Öllum á að vera ljóst hvað við höfum verið að gera í því en síðan viljum við nýta allar auðlindir okkar, bæði til sjós og lands.