136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

framkvæmd fjárlaga og samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

[11:44]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Til að upplýsa betur um tímaáætlanir í sambandi við samstarfsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þá er rétt að fram komi að töfin sem þar hefur orðið á frá upphaflegum hugmyndum haustsins varð að mestu leyti í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ætlunin var að ganga frá ýmsum gögnum og senda sjóðnum í lok desember, síðan var fenginn frestur til að ljúka þeirri vinnu í janúar og síðan fór janúarmánuður eins og hann fór og 1. febrúar þegar ég kom í fjármálaráðuneytið varð í raun að hefja þá vinnu frá grunni. Það skýrist af þessum ástæðum. Ég er ekki að ásaka fyrri ríkisstjórn að öllu leyti fyrir það, við vitum hvernig aðstæður voru, við vitum um upplausnina sem hér varð í janúar og við vitum um stjórnarskiptin.

Töfin varð fyrst og fremst þarna, þær tvær til þrjár vikur sem síðan hafa bæst við skýrast alfarið af því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom nokkru seinna til landsins en hann hafði áætlað og dvaldi lengur. Að öðru leyti er þessi áætlun á tíma eftir því sem hún gat orðið frá því að stjórnarskiptin urðu.

Þau gögn sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fengið frá stjórnvöldum og/eða tekið saman sjálfur eru fyrst og fremst almenns eðlis. Það eru almennar þjóðhagslegar og ríkisfjármálaupplýsingar. Aldrei hefur staðið til að tæknileg útfærsla í áætluninni yrði unnin í einstökum atriðum fyrr en í maí og júní. Þetta hef ég margreynt að útskýra fyrir sjálfstæðismönnum (Gripið fram í.) en það dugar lítið.

Það er hárrétt hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að umsvifin í hagkerfinu eru afgerandi fyrir stöðu ríkissjóðs. Annars er hvað mesta áhyggjuefnið hversu mikið hagkerfið kólnar niður og hins vegar þróun ytri skilyrða. Það sem vinnur líka á móti okkur núna eru versnandi aðstæður sem hafa verið á útflutningsmörkuðum okkar og óhagstæð þróun í ýmsum mikilvægum viðskiptalöndum.

Ég fagna framvindu umræðunnar hér að undanförnu að einu leyti og það er að nú samþykkja allir að fara verði það sem ég kalla blandaða leið. Formaður Sjálfstæðisflokksins slóst í þann hóp í gærkvöldi. Allir viðurkenna að þetta verður að gera annars vegar með einhverri tekjuöflun og hins vegar með umtalsverðum sparnaði og aðhaldsaðgerðum. Af tveimur ástæðum verðum við augljóslega að gera þetta svona. Sú fyrri er að ekkert annað er hægt, þetta er ekki hægt öðruvísi. Sú seinni er að það væri efnahagslega mjög óskynsamlegt að gera þetta öðruvísi. Ef við gerum þetta með niðurskurði einum saman dýpkum við kreppuna og aukum atvinnuleysið og þá þyrfti að segja upp mörg þúsund manns hjá hinu opinbera. Ef við reynum þetta alfarið með skattahækkunum kæfa þær allt niður. Ég held að ekki sé mikill pólitískur ágreiningur um þetta þó að aumingja vesalings Sjálfstæðisflokkurinn sé í vandræðum sínum hér að reyna að dikta hann upp. Af hverju er það? Það er af því að Sjálfstæðisflokkurinn var að vona að hann gæti smíðað sér vopn í kosningabaráttunni með þessum málflutningi (Forseti hringir.) vegna þess að þau vopn sem hann hefur í höndunum eru ónýt og bitlaus, eins og sést vel þessa dagana.