136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:41]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns var nokkurn veginn endurtekning af mörgum ræðum sem hér hafa verið fluttar á undanförnum dögum og smám saman er nú að renna upp fyrir flestum um hvað þetta málþóf snýst. Það snýst um að koma í veg fyrir tvennt, annars vegar að náttúruauðlindir komist í þjóðareign og hins vegar að skapa almenningi aukinn rétt til beins lýðræðis. Á þeirri vegferð er víða komið við, m.a. reynt að færa rök fyrir því að hugtakið þjóðareign sé hér óskýrt. Hugtakið þjóðareign er afar skýrt. Um er að ræða réttindi í ríkiseigu sem hafa það einkenni að óheimilt er að láta þau varanlega af hendi, það er kallað þjóðareign. Auðvitað geta menn og hv. þingmenn flutt ýmsar ræður um að það sé óskýrt en í hugum þeirra sem áttu þátt í að skapa þetta hugtak og sátu í auðlindanefndinni fyrir rúmlega tíu árum síðan, er þetta afar skýrt.

Þess vegna vil ég í þessu andsvari, virðulegi forseti, beina tveimur spurningum til hv. þingmanns. Í fyrsta lagi: Hvernig stendur á því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru því andvígir að náttúruauðlindir verði varanlega festar í sessi sem eign þjóðarinnar? Í annan stað: Hvaða efnislegu athugasemdir hefur Sjálfstæðisflokkurinn og hv. þingmenn þess flokks við að réttur almennings til þess að krefjast þess að mál gangi til þjóðaratkvæðis nái ekki fram að ganga? Þetta eru lykilspurningar, virðulegi forseti, sem mér finnst mikilvægt að hv. þingmenn takist á við efnislega en flýi ekki inn í formið og stóryrðin eins og þeir hafa einsett sér nú á þriðja degi þessarar umræðu.