136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt hitt á kjarna málsins þegar hann vísaði til þess frumvarps sem var lagt fram fyrir tveimur árum varðandi sams konar hluta, þ.e. hluta af þessu frumvarpi. Það tók ekki til allra þeirra efnisatriða sem eru í þessu frumvarpi. Ég vil þá aðeins vekja athygli á því og rifja upp hver urðu örlög þess máls.

Þegar það mál kom til umræðu í þinginu skapaðist ósætti um það þrátt fyrir að menn teldu að þeir væru búnir að vinna það með þeim hætti að samkomulag gæti náðst. Í ljósi þess ósættis var það samdóma álit þingsins á þeim tíma að í stað þess að reyna að afgreiða það með einhverju meirihlutavaldi væri skynsamlegra að ætla sér betri tíma og það er nákvæmlega það sem ég hef hvatt til. Ég tel ekki raunhæft að afgreiða þetta mál í heild sinni fyrir þinglok núna. Ég hef nefnt ákveðna hluti í því sambandi og tel að sáttin felist í því að ætla okkur þann tíma sem við þurfum síðar á þessu ári þannig að við getum lokið endurskoðuninni á þessum efnisatriðum (Forseti hringir.) síðar á árinu.