136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom nokkuð inn á fiskveiðistjórnina og fannst t.d. ótrúlegt að við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gætum verið sammála í sambandi við það mál sem hér um ræðir. Skýringin er einfaldlega sú að þetta mál hefur ekki áhrif á fiskveiðistjórnarkerfið. Þess vegna getum við hv. þingmaður verið sammála.

Svo sagði hv. þingmaður eitthvað um að fræðasamfélagið og lögspekingar væru bara allir á móti, ég gat ekki skilið það á annan hátt. Þá ætla ég vitna í nokkra af þeim sem komu fyrir nefndina, t.d. sagði Ragnhildur Helgadóttir að hún fagnaði efnisatriðum í frumvarpinu og hún vill fá flest þessara atriða inn í stjórnarskrá. (Gripið fram í: Og varaði við aðferðinni.) Magnús Thoroddsen segir nauðsynlegt að fá stjórnlagaþing, hann er ánægður með þjóðareignarákvæðið og telur engan vafa á merkingu. Sigurður Líndal er hlynntur stjórnlagaþingi en segir þjóðareignarhugtakið merkingarlaust svo ég láti það koma fram. Það kom engum á óvart, það hefur oft komið fram. Ragnar Aðalsteinsson segir að frumvarpið flytji okkur í lýðræðisátt. Hann er ánægður með stjórnlagaþingið en ekki hrifinn af miklum afskiptum Alþingis eins og frumvarpið leit út í upphafi. Eiríkur Tómasson segir að íslenska þjóðin verði eigandi auðlindanna um aldur og ævi með því að setja þetta inn í stjórnarskrá og að þetta ákvæði greini frá almennum ríkiseigum eins og allir vita. Hann sér ekki galla á skilgreiningunni með því að hafa þetta svona.

Ég spyr, hæstv. forseti, hv. þingmann: Hvað telur hann að það þurfi mörg ár (Forseti hringir.) til viðbótar til að ræða þetta ákvæði (Forseti hringir.) um þjóðareign til að (Forseti hringir.) niðurstaða náist í Sjálfstæðisflokknum um að það sé óhætt að setja það í stjórnarskrá?