136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sama hve hv. þingmaður kemur oft hingað upp, það liggur fyrir að í umsögnum yfirgnæfandi hluta umsagnaraðila er varað við því að staðið sé að málum sem raun ber vitni. Finnst hv. þingmanni í lagi að við gerum grundvallarbreytingar á stjórnarskránni í ósætti? Finnst hv. þingmanni það vera boðleg vinnubrögð að bjóða umsagnaraðilum upp á það að þeir hafi fimm virka daga til að segja álit sitt á grundvallarbreytingum á stjórnarskránni?

Ég trúi því ekki að jafnþingreynd kona og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir vilji vinna með þessum hætti. Ég trúi því bara ekki. Ég hef haft heilmikið samstarf við hana í gegnum tíðina og ég hef ekki fundið annað en að hv. þingmaður vilji sýna þinginu fulla virðingu. Þessi vinnubrögð hennar á síðustu dögum hér í þinginu eru stílbrot frá allri hennar vinnu eins og við höfum kynnst henni. Ég hvet hv. þingmann til að endurskoða þetta. Ég vísa m.a. í þessu ljósi til Sambands íslenskra sveitarfélaga, stjórnsýslustigs sem varar við því að (Forseti hringir.) við afgreiðum þetta mál í ósætti. Vill hv. (Forseti hringir.) þingmaður að við séum í ósætti við allt og alla um breytingar á stjórnarskránni?