136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:02]
Horfa

Kristrún Heimisdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta til þess að inna forseta eftir því og hvetja til þess að tekin verði til umræðu hér í þinginu skýrsla sú sem birt er um þetta leyti í Bretlandi og er skýrsla fjárlaganefndar breska þingsins, sérstök skýrsla um fall bankanna á Íslandi.

Skemmst er frá því að segja að sú skýrsla er móralskur sigur fyrir Ísland í þessu máli. Hvers vegna? Vegna þess að niðurstaða nefndarinnar er sú að ekki hafi verið rétt tilefni til ummæla breska fjármálaráðherrans eins og Íslendingar hafa alltaf haldið fram. Það er átalið í skýrslunni að breska ríkisstjórnin skuli hafa stigið inn og orðið gerandi á markaði með skaðlegum áhrifum fyrir Ísland. Það er átalið að hryðjuverkalögum skuli hafa verið beitt með verulega óheppilegum afleiðingum og áhrifum á það hvernig Íslandi, íslenskum stjórnvöldum, mundi ganga að halda uppi (Forseti hringir.) fjármálakerfi á Íslandi. Það er sérstaklega tekið fram að (Forseti hringir.) í beitingu hryðjuverkalaga felist í sjálfu sér brennimerking (Forseti hringir.) á öllum íslenskum fyrirtækjum og sé það því (Forseti hringir.) í sjálfu sér óheppilegt.

Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram hér áður en ég fer úr pontunni (Forseti hringir.) að þessu hélt íslenski utanríkisráðherrann (Forseti hringir.) t.d. mjög skýrt fram á fundi sem ég var viðstödd (Forseti hringir.) með utanríkisráðherra Bretlands en hann hafnaði því öllu saman. Nú hefur breska þingið (Forseti hringir.) tekið undir málstað Íslendinga.