136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:04]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessari merkilegu niðurstöðu fjárlaganefndar breska þingsins sem nú liggur fyrir. Þar kemur fram að Bretar sjálfir gagnrýna það offors sem bresk stjórnvöld beittu í framgöngu gagnvart Íslendingum og íslenskum hagsmunum. Þetta er að mínu mati mikilvægur áfangasigur fyrir okkur Íslendinga og að sínu leyti einnig fyrir fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra sem þurfti að sæta árásum fyrir framgöngu sína í samskiptum við fjármálaráðherra Bretlands, m.a. frá ýmsum þeim sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands.

Ég vil fara þess á leit við hæstv. forseta að þetta mál verði tekið til formlegrar umfjöllunar hér í þinginu svo fljótt sem verða má, helst á mánudaginn. Við (Forseti hringir.) höfum að mínu frumkvæði samþykkt frumvarp sem (Forseti hringir.) greiðir fyrir málsókn gegn breskum yfirvöldum vegna beitingar hryðjuverkalaga. (Forseti hringir.) Ég tel að þetta sé tilefni til að (Forseti hringir.) taka þetta mál til umfjöllunar strax á mánudaginn til þess að fá afdráttarlaus (Forseti hringir.) viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessari niðurstöðu.