136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þessari ábendingu hv. þm. Kristrúnar Heimisdóttur. Ég tel að það sé alveg einboðið að verða við því að opna möguleika á því að við getum rætt skýrsluna sem fjárlaganefnd breska þingsins gerði opinbera í dag. Þetta eru auðvitað stórtíðindi og mjög merkileg tíðindi og mikill sigur fyrir Íslendinga, ekki bara fyrir einstaka stjórnmálamenn heldur fyrir Íslendinga og íslenska hagsmuni.

Því miður reyndu mjög margir hér innan lands að gera ummæli hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesens, tortryggileg þó að glögglega hafi komið fram, þegar maður las útskrift af orðaskiptum hans og fjármálaráðherra Breta, sem birtust opinberlega, að ekkert í ummælum hæstv. fjármálaráðherra gaf tilefni til þessa fantaskapar af hálfu breskra stjórnvalda.

Nú hefur fjárlaganefnd breska þingsins komist að sömu niðurstöðu og það er mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál á þjóðþinginu til þess að undirstrika samstöðu okkar sem íslenskrar þjóðar í þessum efnum þegar við eigum í (Forseti hringir.) stríði við óbilgjarna þjóð (Forseti hringir.) eins og Bretar hafa verið undir forustu ríkisstjórnarinnar þar.