136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:10]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil þakka frumkvæði hv. þm. Kristrúnar Heimisdóttur sem væntanlega verður til þess, miðað við undirtektir, að þingmenn fá tækifæri til þess að ræða þetta stóra mál strax á mánudaginn kemur.

Ég minni á að Ísland er enn undir hryðjuverkalögum í Bretlandi og eignir Landsbankans eru þar enn frystar. Ég minni líka á að kallað var eftir aðgerðum á öllum þremur vígstöðvum sem Íslendingar höfðu aðkomu að til þess að hrinda þessum ólögum og þessum árásum Breta af höndum okkar.

Í fyrsta lagi var kallað eftir því að tekist yrði á við æðstu stjórnmálamenn Bretlands, að rætt væri við þá persónulega um þessa þætti. Einnig var talað um hinn lögformlega farveg, að fara í mál. Loks var rætt um almannatengslin sem mér sýnist á þessu að hafi (Forseti hringir.) borið árangur.