136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:03]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var talsvert um þversagnir í ræðu hv. þingmanns. (Gripið fram í: … ræða um frumvarpið?) Ég óskaði eftir því að komast í andsvar strax vegna ummæla sem féllu í upphafi ræðunnar um það að þeir sem að þessu standa stundi lýðskrum, eins og fram kom hjá hv. þingmanni.

En í ræðu hv. þingmanns tók hún undir allar greinar á einn eða annan hátt. Talaði reyndar um ráðgefandi stjórnlagaþing en ekki tillögugefandi en að öðru leyti var hv. þingmaður meira og minna sammála efni frumvarpsins. Lýðskrumið er því ekki meira en svo að hv. þingmaður er sammála efni frumvarpsins meira og minna.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort hún ætli að koma hér upp og biðjast afsökunar á þeim ummælum sem hún viðhafði um félaga sína í þinginu.

Í annan stað vil ég einnig nefna að stjórnarskrá er aldrei breytt nema í aðdraganda kosninga. Ástæðan fyrir því er sú að það verður að efna til kosninga um leið og breyting á stjórnarskrá hefur verið samþykkt. Það eru einfaldlega ákvæði stjórnarskrár sem kveða þannig á um og af þeim sökum er stjórnarskrá aldrei breytt nema í aðdraganda kosninga. Það hefur ekkert með ÖSE að gera. (Gripið fram í.) Stjórnarskránni er aldrei breytt öðruvísi en skömmu fyrir kosningar. Vegna þess að það er skylt að efna til kosninga eftir að stjórnarskrárbreyting hefur verið samþykkt. Þetta vildi ég nefna í umræðunni vegna þess sem fram kom í máli hv. þingmanns.

En í ljósi þess að hv. þingmaður er efnislega sammála þeim breytingum sem hér er verið að leggja til vil ég ítreka spurningu mína um hvernig hv. þingmaður útskýrir það að þeir sem að þessu máli standa stundi lýðskrum og að hv. þingmaður færi að minnsta kosti betri rök fyrir máli sínu en að svona sleggjudómar standi einir og órökstuddir.