136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:05]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri kannski ágætt ef hv. þingmaður hefði hlustað á það sem sagt var. Í upphafi máls míns sagði ég að þeir þingmenn sem segi að breytingar sem hér er verið að leggja til á stjórnarskránni snúist að einhverju leyti um bankahrun og efnahagsvanda þjóðarinnar, þeir sem nýti sér umræðuna á þann hátt, þeir væru lýðskrumarar. Þetta er orðrétt hér, hæstv. forseti, að þeir sem ætla að tengja þessar breytingar á stjórnarskránni við bankahrun og efnahagsvanda þjóðarinnar og kalla þannig til sín stundarvinsældir, þeir þingmenn sem það gera eru lýðskrumarar, að mínu mati, vegna þess að þessar breytingar eiga ekkert skylt við bankahrunið eða efnahagsvanda þjóðarinnar. Ekki neitt. Svo það liggi algerlega klárt fyrir.

Ég tel því ekki, hæstv. forseti, að ég sem þingmaður þurfi að biðja þá sem að þessu frumvarpi standa afsökunar á því að hafa kallað þá lýðskrumara vegna þess að það gerði ég ekki. Svo því sé til haga haldið.

Ég er mér vel meðvituð um það, hæstv. forseti, að stjórnarskrárbreytingar þarf að leggja fyrir þjóðina og þær eru kláraðar rétt fyrir kosningar til þess að unnt sé að gera það. En aðdragandinn, málsmeðferðin sem nú er beitt er ekki í takt við það sem áður hefur verið og það var það sem ég átti við, hæstv. forseti, þegar ég velti þeirri spurningu upp hvort það gæti verið að keyra ætti breytingar á stjórnarskránni í gegnum þingið eftir þá málsmeðferð sem hefur verið með svo stuttum fyrirvara, væri hugsanlega ástæða þess að ÖSE ætlaði að fylgjast með kosningum á Íslandi.