136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:07]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að það komi fram að hv. þingmaður var ekki að kalla þá sem hér hafa tekið til máls lýðskrumara. Það er gott að það liggi fyrir.

Hitt sem kom fram í máli hv. þingmanns var að hv. þingmaður sagði að það hefði myndast gjá milli þings og þjóðar og að mikilvægt væri að reyna að efla traust á þinginu í ljósi þess sem átt hefur sér stað. Hv. þingmaður talaði einnig um að það væri skynsamlegt að breyta stjórnarskránni og efna til stjórnlagaþings. Reyndar sagði hv. þingmaður að stjórnlagaþing ætti að vera ráðgefandi fyrir þingið.

Hv. þingmaður talaði því einnig um að það væri rétt að breyta stjórnarskránni. En mér virðist af ummælum hv. þingmanns að hún hafi fyrst og fremst verið að tala um það að það væri rétt að breyta stjórnarskránni, bara ekki núna. Það væri rétt (Forseti hringir.) að breyta stjórnarskránni bara það mátti ekki beita þessum aðferðum. Þetta (Forseti hringir.) hefur verið kjarninn í umræðu Sjálfstæðisflokksins í umræðunni um stjórnarskrármál.