136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var náttúrlega einstaklega vel flutt. En það voru atriði í henni sem mér finnst vera ástæða til þess að gera athugasemdir við og það varðar sérstaklega það þegar hv. þingmaður talar um að það sé gjá á milli þings og þjóðar.

Hv. þingmaður vill samt alls ekki gera neitt úr því að það þurfi einhvern veginn að koma til móts við þjóðina í framhaldi af þeim ósköpum sem hafa gengið á hérna í þjóðfélaginu og í framhaldi af því sé skortur á trausti gagnvart valdhöfum, gagnvart stjórnvöldum. Hvernig getum við komið á auknum lýðræðisumbótum, eins og má kalla það, til þess að bregðast við ástandinu? Þess vegna finnst mér alveg full ástæða til þess að tengja það sem frumvarpið gengur út á við ástandið í þjóðfélaginu og þá gjá sem hv. þingmaður nefndi.

Þegar hún talar um að umsagnaraðilar veiti frumvarpinu slæmar umsagnir þá er það ekki rétt. [Sími hringir í þingsal.] Er þetta til mín? (Gripið fram í.) Jæja. Nú er ég aldeilis að standa mig vel hérna. Ég missti eiginlega þráðinn.

Hv. þingmaður handvelur þegar hún talar um umsagnir því það eru mjög margir umsagnaraðilar sem gefa þessu frumvarpi góðar og jákvæðar umsagnir og telja mikilvægt að það nái fram að ganga. Ég ætla að tala um ÖSE í síðara andsvari mínu.